mánudagur, 27. apríl 2009

Bosphorus Seagulls
Mávur steypir sjer á eftir brauðmola í ferjunni yfir Bosporus.

Ljenzherrann af Kaffisterkt hefir fyrir margt löngu snúið aftur til helvískra bækistöðva sinna eftir frækna Tyrklandsför. Læddist hann svo til hljóðlaust um forna staði á gúmsólum. Varpaði hann skugga sínum á frægar fornminjar, og jafnvel allt að átta skuggum samtímis á gólf sumra hinna vafasamari öldurhúsa borgarinnar. Geri aðrir betur. Á líruteknóknæpunni "Araf" var Ljenzherrann jafnvel svo liðtækur á dansgólfinu að til að halda gúmbrunalyktinni í skefjum brugðu staðarhaldarar á það ráð að kæla gólfið með dýrindis neyzluvatni. Ljenzherrann kunni slíkt vel að meta, enda hafði það einnig núningslækkandi verkan sem skilaði sjer greinilega í mjaðmahnykkjum magadansmeyjanna. Guddur í gógóbúrum áttu hylli meðaltyrkjans óskipta, en Stórtyrkirnir lágu borginmannlegir í fletum sínum, útdeildu rannsakandi augnarráðum og tottuðu vatnspípur. Þess ber þó að geta, að í Tyrklandi er fátt um Guggur, en þónokkuð um Guddur.

Ayasofya
Aya Sofia. Fyrst kirkja, svo moskva, loks safn.

Veðrið í Konstantínópel var þó ekki eitthvað sem Ljenzherrann leggur í vana sinn að hrópa húrra fyrir. Íklæddur ullarnærfötum skjögraði hann á milli götusalanna og snapaði af þeim te. Persónutöfrar Ljenzherrans eru reyndar slíkir að samstundis gerðust þeir hans kumpán. Voru þeir forvitnir um ættjörðina og buðu honum sjerstök kjör á ýmsum varningi. Á nútímamáli nefnist slíkt hátterni, er menn afla sjer viðskiptasambanda og kunningsskaps, "networking" og er Ljenzherrann fullviss um að hann muni njóta góðs af þessu tengslaneti í framtíðinni.

Galata Bridge
Tyrkjarnir renna fyrir fisk allan sólarhringinn í gyllta horninu.

Blóðsugur
Sem væri þeim illmögulegt án blóðsuganna frá Doktor Mesut, en þær ku vera allra meina bót

Konstantínópel fær þrjár og hálfa stjörnu af fimm mögulegum.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ætli það sé vinningur í tappanum á þessu neysluvatni sem blóðsugurnar eru í?

Ljenzherrann sagði...

Hann var alltjent með mikla og flotta korktöflu fyrir aftan sig, svo mikið var víst!