mánudagur, 13. október 2008

Föndurhorn Ljenzherrans.
Í kreppunni er gott að finna sjer eitthvað til að dunda sjer við og fá þannig útrás fyrir innbyrgðar tilfinningar og botnlaust órjettlætið sem hellist nú yfir landsmenn. Í þessu fyrsta föndurhorni mun Ljenzherrann kenna lesendum sínum hvurnig jafnvel hinir meztu klaufar geti klambrað saman níðstöng án mikils tilkostnaðar.

Níðstöng
Í þetta skemmtilega verkefni þurfið þjer:
1 Hrosshöfuð
4m battning (2"x4" útitimbur)
1 Skóflu
1 Járnkarl (fer eftir jarðveginum þar sem stöngin er reist)
Sporjárn
1 Brúsi festifrauð, til dæmis Sika Boom
Tröppur


1.
Fyrst þarf að kraka innan úr hrosshöfðinu þannig að hægt sje að þræða það upp á staurinn. Bezt fer á að gera slíkt með sporjárni eða öðru slíku verkfæri. Hægt er að nota töfrasprota, líkt og finna má í mörgum eldhúsum, til að gera heilann fljótandi og er þá lítið mál að hella honum úr.


2.
Grafa þarf holu á þeim stað er fyrirhuguð níðstöng mun rísa. Sje henni ætlað að standa vetrarlangt ber að grafa niður fyrir frostdýpt sem algengt er að sje í kringum 80 cm á láglendi Íslands.

3.
Þegar holan er tilbúin er stöngin sett ofan í og fyllt aftur upp í 30 cm lögum. Þess skal gætt að hún sje ætíð lóðrétt og stappa skal duglega á milli laga. Einnig er gott er að væta smá með vatni öðru hverju til að tryggja fyrirtaks þjöppun jarðvegarins, og þar með stöðugleika stangarinnar til langframa. Vel unnið verk er yður ætíð til sóma.

4.
Nú skal hrosshöfuðið sett á stöngina, en gætið þess að slasa yður eigi í tröppunum. Síðan skal mælt:
"Hjer set eg upp níðstöng, og sný eg þessu níði á hönd XXXXXXXXX"
hvar XXXXXXX táknar nafn þeirrar persónu, stofnunar eða fyrirtækis sem ætlunin er að níða.


5.
Höfðinu er nú snúið í átt að hinu nídda og mæla skal svo:
„sný eg þessu níði á landvættr þær, er land þetta byggva, svo að allr fari þær villr vega, engin hendi né hitti sitt inni, fyrr en þær reka XXXXXXXXXXX úr landi.“
festifrauði er svo sprautað inn í hrosshausinn þannig að hann tolli í jafnvel verstu fárviðrum.6.
Allt hið skáletraða hjer að ofan skal skorið í stöngina og er hún þá tilbúin.

7.
Njótið afrakstrarins.
1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fullkomlega dásamlegt. Takk fyrir leiðbeiningarnar