miðvikudagur, 4. júní 2008

Safarídeild sýslumannsins á Blönduósi.
Ljenzherrann er orðinn langþreyttur á að svara fyrir heimskuleg uppátæki landa sinna. Nægir þar að nefna grein í National Geographic um stóriðjustefnuna, fjármálaundrið íslenska, fjármálahrunið íslenska, hvalveiðar og nú síðast þetta grimmilega pólarbjarnarvíg.

Ein af erfiðari spurningum sem borin hefir verið fyrir Ljenzherrann kom í kjölfar verkefnis sem hann vann um flóðavarnir vegna Kötlugoss. Á tjaldinu fyrir aftan hann var mynd af þeim guðs volaða stað Vík í Mýrdal. "Hvað gerir fólkið þarna eiginlega?" Var spurt. Ekki átti Ljenzherrann svar því.

Það er annars af Ljenzherranum að frjetta að hann sótti, allt til dagsins í dag, námskeið í meðhöndlun sprengiefna. Við hverja spurningu Ljenzherrans jókst tortryggni kennarans í garð þessa nemanda síns, enda var hann ekki að forvitnast um jarðgangnagerð eða námuvinnslu heldur algera eyðileggingu hinna ýmsustu hluta svo sem brúa, húsa og þess lags. Í dag þegar verkleg kennsla fór fram var búin til vegleg sprengja og Ljenzherranum svo falið að blása í horn til að vara við herlegheitunum. Fimm löng merki, í hverja höfuðátt og svo eitt upp til heilagrar Barböru, sem er verndardýrlingur námuverka- og jarðgangnagerðarmanna. Ljenzherrann spurði hvort að hann mætti ekki frekar blása eitt upp til hans Alla og nokkrum mínútum síðar var lögreglan mætt með ýmsar óþægilegar spurningar og lauk þar með akademískum ferli Ljenzherrans á sviði sprenginga.

Engan lúðraþyt hlaut Aðalsteinn heitinn Þorkelsson sjer til sæmdarauka þennan daginn.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert einn allra fyndnasti maður sem ég veit um, a.m.k. í rituðu máli.
Ekki hætta...