sunnudagur, 30. mars 2008

Fjöllin, hreinaloftið og Bóbó.
Lífsgæði þykja hvað mest í sambandsríkinu Helvetíu og skyldi engan undra. Hér er meðalaldur hunda með því hæsta sem þekkist og um götur bruna sporvagnar. Ljenzherrann hefir verið iðinn við að kynna sjer menningu innfæddra og hyggst jafnvel verða viðstaddur stórtónleika manns sem mun, þegar mannkynssagan hefir varpað skýru ljósi á mikilfengleik hans, leysa Vilhjálm Tell af hólmi sem þjóðarhetju helvískra.

Mikilmenni þetta er nú á glæstri gandreið um Meginlandsevrópu og í þjóðarsjónvarpi helvískra var sýnd ákaflega merkileg fræðslumynd um tilurð þessarar hljómleikaferðar, en Svisslendingar hafa að sönnu mikinn áhuga á skipulagningu og undirbúningi. Hafði Ljenzherrann af þessari mynd mikla skemmtan. Hófst hún er Djejoð sjálfur var á leið til fyrsta fundar við leikmyndahönnuð, kóreógraf, pyrótekníker og fleiri mæta menn. Á þessum fyrsta fundi lýsti listamaðurinn kristaltærri sýn sinni eins og hann hefði orðið fyrir guðlegri opinberun. Sviðið skyldi byggt í kringum risavaxinn haus af dreka sem blásið gæti reyk um nasir, en spúið eldi úr munni. Bóbóstyledanshópur, samhæfður sem klukkur svissnesku járnbrautastöðvanna. Evrópa hefði aldrei sjeð annað eins.

Sýnt var frá undirbúningnum á ýmsum stigum og með reglulegu millibili voru viðtöl við djejoð Bóbó þar sem hann útskýrði af stöku æðruleysi hvernig hann væri aðalmaðurinn. Ekkert sjó án Bóbó. Eitt þessara viðtala var öðrum betra. Lýsti vínýlhúðaður Bóbó yfir áhyggjum þess efnis að upphafsinnkoma sín væri etv. ekki nógu tilkomumikil. Hann stappaði niður löppunum eins og frekur krakki þannig að skrölti í vírunum sem áttu að bera hann fljúgandi um salinn, eftir að hafa hafist til flugs úr reykmettuðum og eldspúandi drekakjaftinum..

Skammt var á stórra högga á milli. Í næsta atriði sýndi der Bobo syni sínum stoltur sviðsmyndina. Stráksi sagði að þetta líktist meira hundi en dreka. Smá bútur af hjarta Der Bobo dó. Ljenzherrann glotti.

Sem betur fer hefur der Bobo stórt hjarta og var því fljótur að leggja þessa erfiðleika að baki sjer. Enda mörg verk að vinna. Þar á meðal var að humma nokkur gítarsóló sem gítarleikarinn átti að apa eftir og sapiens-bítboxa rafmagnstrommusólóið ofan í trommuleikarann, hvoru tveggja þótti Ljenzherranum hin mezta skemmtan.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hello I just entered before I have to leave to the airport, it's been very nice to meet you, if you want here is the site I told you about where I type some stuff and make good money (I work from home): here it is

Nafnlaus sagði...

Hello I just entered before I have to leave to the airport, it's been very nice to meet you, if you want here is the site I told you about where I type some stuff and make good money (I work from home): here it is