þriðjudagur, 1. janúar 2008

Veraldlegur anall 2007.
1. janúar klukkan 00:30
Ljenzherrann fagnar því að nýtt ár sje gengið í garð, en þá eru áramót bæði á Íslandi og í Sviss að meðaltali. Verknaðurinn var framinn með því að skjóta tappa úr kampavínsflösku sem keypt hafði verið daginn áður á Heathrow flugvelli. Samverkandi áhrif innihalds flösku þessarar við aðrar veigar valda því að Ljenzherrann missir meðvitund í sófa sínum.

15. janúar
Ljenzherrann tekur Zentrale Mittelstufeprüfung og fær þá flugu í kollinn að gaman gæti verið að kíkja til Asíu í þann rúma mánuð sem líður frá þessu prófi þar til ETH byrjar.

20. janúar
Ljenzherrann fer til Asíu. Sækir Tæland, Laos og Kambódíu heim.

Laos"Your people will think we are strange"In safe hands

12. febrúar
Ljenzherrann frumsýnir hvíta kynþáttinn fyrir þorpsbúum nokkrum í Laos. Frumsýniningin vekur mikla athygli hjá hinum eldri en ugg hjá hinum yngri.

S21 Toul SlengS21 Toul Sleng

25. febrúar
Ljenzherrann er staddur í Phnom Penh þegar að hann frjettir í gegnum tölvupóst að hann hafi náð ZMP og þar með geti hann hafið nám við ETH í mars. Næstu tvö árin í lífi hans ráðin. Í kjölfarið fær hann mikinn áhuga á þriggja stafa skammstöfunum.

15. mars
Ljenzherrann snýr aftur til Sviss og fær PTD, eða post travel depression.

Kampong Chnang, Cambodia

20. mars
Fyrsta önnin hefst við ETH. Ljenzherrann fær ekki um frjálst höfuð strokið næstu mánuðina.

23. maí
Ljenzherrann og hans sjerstaki einkalæknir (SEL) ákveða að halda í heljarinnar reisu. Skal ferðinni heitið landleiðina til Peking og upphafstaður mun vera bækistöðvar Ljenzherrans í Zürich. Ennfremur sammælast þeir um að skerða skegg sín ekki frekar.

20. júní.
Fyrstu önn lýkur. Ljenzherrann flytur fyrirlestur um sólarorkuverkefni sem hann hafði þróað frá hugmynd til turnkey verkefnis og er boðið fjármagn og aðstaða til að framkvæma það. Ljenzherrann afþakkar pent og stekkur upp í lest til Úkraínu þrem tímum seinna. Er þetta fyrsti leggurinn í hinni
10. 785km reisu.

Chornobyl, UkrainePripyat, Ukraine

26. júní.
Ljenzherrann skoðar Chornobyl kjarnorkuverið og uppgötvar síðar um daginn hvursu vel saltaðar gúrkur og vodki fara saman. Um kveldið á hann miða í lest til Moskvu.

28. júní
Ljenzherrann og hans sjerstaki einkalæknir galdra yfirvaraskegg úr myndarlegum alskeggjum sínum.

In High SpiritsMoscow, RussiaMoscow, Russia

29. júní
Ljenzherrann snæðir staðgóðan morgunverð á Mc Donalds og heldur síðan í Lenínbiðröðina ásamt hundruðum suðurkóreskra kommúnismaperverta. Lenín var bleikur og ilmaði af parafíni.

30. júní.
Ljenzherran fær flensu í Moskvu. Hann er ekki viss um hvort hann hafi smitast af Pótemkín litla eða þá hvort að bölvaður einkalæknirnn hafi sýkt hann með lagerflensu í hefndarskyni fyrir ákveðið atvik í Kænugarði. Læknirinn sýnir ekki hina minnstu viðleytni, húsbónda sínum til líknar.

31. júní
Óþægilegur dagur í litlum lestarklefa með teim Rússum. Annar þeirra lítur út eins og svikahrappur en hinn er afar slavneskur yfirlitum og er ennfremur majór í rússneska hernum.1. júlí
Ljenzherrann og einkalæknirinn gera árangurslausa leit að kortum fyrir hina fjölmörgu kortasíma í Jekaterínborg. Þar voru Pomanob myrtir en Ljenzherrann hafði meiri áhuga á Pektopah og Bap.

2. júlí
Vandræðalegur dagur í litlum lestarklefa með rússnesku pari. Hann lítur út eins og slagsmálahundur en hún eins og kennslukona og gæti allt eins verið móðir hans. Hvorugtveggju gæti þó átt við, því þau voru greinilega utan af landi.


Ljenzherrann stendur keikur á teinum síbirjuhraðlestarinnar. Á þá kúka lestarfarþegar.

3. júlí
Ljenzherrann og hans einkalæknir lenda í Irkutsk. Ferðinni er heitið til Olkhon-eyju í Baikalvatni. Til að komast þangað þarf að komast í rútu til þorpsins rjettnefnda "MPC" en þaðan er ferja. Irkutskútibú rússnesku rútumafíunnar leggur stein í götu ferðalanganna sem hafa stofnað til föruneytis með rússeskum listanemum úr borg heilags Péturs og vísitölufjölskyldu frá Hobosibirsk.
5. júlí
Olkhoneyja í Síbirju. Ljenzherrann horfir á sólarupprásina speglast í Baikalvatni með tveim afdönkuðum pólskum hippum og nýtur sín síðan fyrripart dags í skoðunarferð um eynna í rússajeppa. Um kveldið drakk hann sig ofurölvi er hann reyndi að halda heiðri lands síns á lofti í vodkadrykkju við Rússa nokkra. Einkalæknirinn var ekki mikið skárri en seinnihluta kvelds og lunga nætur átti hann í hrókasamræðum við stúlku sem skildi hann ekki (frekar en hann hana) Þessi slímugi kolkrabbi var þó þó fenginn til að tælla sturlaðan húsbónda sinn til rekkju með öfugri sálfræði. Þar var hann svo lagður í læsta hliðarlegu og lá Ljenzherrann sótbölvandi í eigin heljargreipum þar til hann þvarr meðvitund.6. júlí
Ljenzherrann og hans einkalæknir vakna, að nafninu til, hálftíma áður en rútan ku leggja af stað til Irkutsk. Einkalæknirinn losar húsbónda sinn úr hliðarlegunni með fjórðaárshandbrögðum og barmar sjer síðan mikinn yfir öllu draslinu en Ljenzherrann horfir á hann fljótandi augum og mælir með sínu meitlaða tungutaki: "við þurfum bara að taka allt dótið af gólfinu og setja í töskurnar." Það reyndust orð að sönnu en óþægilega margir heilsa Ljenzherranum eins og sínum bezta vin (á ýmsum tungumálum) er hann skríður inn í matsalinn að hætti lindýra. Þriggja tíma rútuferð bíður þeirra fjelaga og Ljenzherrann reynir að stytta hana eftir megni með því að halla sjer á öxl Austurríksimanns nokkurs, sem dags daglega sjer um Töfraflautuskoðunarferðir í Salzburg. Á miðri leið gera rússneskir ferðafjelgar tilraun til að líkna Ljenzherranum með sínum allsherjarelixír, vodka. Síðar um daginn uppgötva tveir ofurþunnir Íslendingar að þeir séu strandaglópar í Irkutsk. Hin virðingarverða ferðaskrifstofa Svezhi Veter hefir svikið þá. Ljenzherrann nær að lokum, með mikilli áreynslu að úthugsa hjáleið, en allar lestir eru uppbókaðar til Mongólíu vegna Nadam hátíðarinnar. Kaupir hann miða til Buryiatíu eftir að hafa skapað þann glundroða sem til þurfti í miðasölunni.

7. júlí
Vandræðalegur dagur í litlum lestarklefa með manni frá Azerbaijan og konu hans af Buryatþjóð.8. júlí
Ljenzherrann kinkar kolli til stærsta Lenínhöfuðs veraldar í Ulan Ude, höfuðborgar Buryiatíu og kaupir síðan rútumiða til Ulaanbataar daginn eftir.


Sólgleraugu, kojur, einkalæknir og menningarverðmæti.

9. júlí
Ljenzherrans einkalæknir tekinn fyrir smygl á menningarverðmætum og hergögnum á landamærum Rússlands og Mongólíu. Bar honum að framkvæma aðgerð albatross. " Að að varpa góssinu á rússneska grundu og halda ferð sinni áfram".

Moment of truth
Þrem sekúndum síðar snjeri hann sjer um Pí/4 og pæng!

10. júlí
Ulanbaatar er ömurleg borg, en ódýr. Þrátt fyrir yfirgengilegar útumsleikingar á fínustu veitingahúsum borgarinnar tekst þeim fjelögum ekki að klára Mongólsku brandarapeninga sína. Í þynnku og bömmer fella Ljenzherrann og hans sjerstaki einkalæknir yfirvaraskegg sín og skrautfjaðrir. Það sem eftir var ferðar eru þeir í sárum og ná sjer vart á flug.

Ljenzherrann og hans sjerstaki einkalæknir reyndu að hylja nekt sína eftir að hafa fellt skegg.

12. júlí
Vandræðalegur dagur í lestarklefa með þýzkumælandi konu frá Ítalíu og bandarískri stelpukind frá Kentucky. Sú síðarnefnda hefir sjeð Sanders offursta með eigin augum!


Ljenzherrann bar höfuð yfir herðar í Peking og egndi fyrir almenningi með gómsætum sporðdreka.

13. júlí
Ljenzherrann og hans einkalæknir sleikja rækilega út um í höfuðstað alþýðulýðveldisins Kína og sækjast eftir loftskilyrðingu í hvívetna.19. júlí
Ljenzherrann gengur á Kínamúrinn. Hann hefur þó ekki minnstu trú á að þessi hrúga hefði staðið í Agli, Togga, Gretti, Gunnari & co en telur þó að sjaldan hafi þar nokkur tekið sig jafn vel út, er hann spígsporar þar keikur.

21. júlí.
Kominn til Sviss. Ljenzherrann kaupir sér 100 kr pastasósu og Fusilli til eigin suðu. Honum verður hugsað til þess að aðeins í fyrradag hafi hann verið marsjerandi eftir sjálfum Kínamúrnum eins og hann ætti heiminn. PTD sækir hann heim að nýju.

22. júlí
Próflestur ætti að hefjast.


15. ágúst
Próflestur hefst

16. ágúst.
Próf hefjast

Tea?
Kínverskt te kom til líknar og spasma.

20. sept.
Prófum lýkur, pálmaskortur herjar á Ljenzherrann.

23. sept.
Ný önn hefst í ETH. Ljenzherrann sver að gerast Robot-Suisse og veit að það mun kosta hann öll þau einkenni sem greina hann frá þvögunni.


Bragðmiklir ostar krefjast þroskaðra bragðlauka. Þessi var þó ofþroskaður og bragðaðist sem NH3.

12. okt
Ljenzherrann tekur skyndilega út mikinn persónulegan þroska og tilfinningalegan vöxt.

30. okt
Ljenzherrann fer til Köben til að detta í það. Bæði hann og ípóðan hans koma heim nokkrum gígabætum fátækari að geymslugetu. Í frjettum var það helst að Ljenzherrann tók karlmann af arabaþjóð í fangið á lestarstöð nokkurri. Sá reynist síðan deila stigagangi með Ljenzherrans gestgjafa, Gömlum kúk í nýju leðri. Báðum var brugðið.

4. nóv
Ljenzherrann upphugsar apparat sem þaggar niður í nágrönnum með eyðandi bylgjusamliðan. Einkaleyfi er enn frjálst.

15. nóv
Ljenzherrans hávaðasami nágranni flytur á stuðningsheimili fyrir þráláta hikstasjúklinga. Ljenzherrann hellir kampavíni á sófasettið hans.

25. nóv
Ljenzherrann gerir tilraun til að telja upp þau kvikyndi sem hefði lagt sjer til munns um ævina. Iðgeiri Freinarssyni, kverúlanti í Giessen, þykir nóg um og sakar Ljenzherrann um að vera djúpt sokkinn í sjálfskoðun. Ljenzherrann svarar því til að þetta hafi einungis verið næringarlegur angi gagngerrar sjálfskoðunar sinnar. Iðgeir ítrekar mikilvægi þess að listinn þurfi að vera nákvæmur ella þurfi Ljenzherrann að bæta hattinum sínum á hann. Ljenzherrann fnussar, því að hans mati telst hattur ekki kvikyndi, og svarar með þvælu sem ekki er svararverð. Iðgeir Freinarson svarar ekki.

21. des
Kennslu lýkur24. des
Heilög jól á heimili Ljenzherrans sem ná hápunkti með óhóflegu strútsáti.

27. des
Próflestur hefst hjá Ljenzherranum.

31. des
Ljenzherrann tekur sjer hlje frá próflestri til að horfa á áramótaskaupið. Verður mjög ánægður er honum stekkur ekki bros á vör. Hann telur að hann hafi misst allan húmor og náð að umbreytast fullkomlega í Robot Suisse.

Engin ummæli: