fimmtudagur, 16. ágúst 2007

Kyiv, Ukraine
Kyiv

25. júní 2007, Kænugarður
Ljenzherrann vaknaði upp við öskur og læti. Í stað þess að spretta á fætur og athuga hvurslags væri, lá hann glottandi og hlustaði á einkalækninn ryðjast inn á bað með miklum skarkala og skella síðan á eftir sjer. Ljenzherrann var ánægður, enda hafði hann komið fram fullum hefndum fyrir það að hafa verið skilinn eftir.

(Það er deginum ljósara að limirnir skulu eftir höfðinu dansa, en af tillitsemi við einkalækninn verður ekki farið nánar út þau ósköp sem hann varð fyrir þessa nótt, enda á litla skinnið nógu erfitt að lifa með þessu eins og er. Verði þó einhver misbrestur á slíku, mun Ljenzherrann leysa frá skjóðunni. Þetta veit læknirinn manna bezt og gerir sjer fulla grein fyrir afleiðingum þessa fyrir sína opinberu persónu og þá erviðleika sem slíkt myndi honum skapa við að leita sjer selskapar af öndverðukyni. Þannig er einmitt hin fullkomna hefnd, ekki einasta jafnar hún sakirnar af stakri rjettvísi, heldur nýtist hún einnig sem hótun síðar meir. Ljenzherrann mælir eindregið með bókinni "Listin að aga skósveina og átta fyrirbyggjandi aðferðir gegn uppreisn" eftir Saparmurat Niyazov.)

Kyiv, Ukraine
Illa agaðir skósveinar, með rjettu ættu þeir að vera árvakir

Með skýrlega markaða goggunarröð hjeldu þeir Ljenzherrann og hans sjerstaki einkalæknir í ætisleit. Ljenzherrann beitti hinni frægu ratvísi sinni til að þefa uppi humáttina að velþokkuðum veitingastað. Reyndist seinni humáttin vera hin rjetta. Þar öðluðust þeir svo rækilega kviðfylli að áhuginn fyrir því að skoða borgina varð var farinn að lúta í lægra haldi fyrir góðum lúr uppi á hóteli. Hin eðlislæga forvitni Ljenzherrans varð þó svefnhöfginni yfirsterkari og til slenminnkunar fyrirskipaði Ljenzherrann að einkalæknirinn skyldi dæla upp úr sjer hálfu kílói indverskra kræsinga hið minnsta. Að vanda fjekk læknirinn að ráðstafa hinu uppdælda eftir eigin geðþótta, en grunur leikur á að hann hafi haft það í nesti daginn eftir. Ljettir á fæti mæltu þeir sjer móts við ráðgefandi verkfræðing nokkurn sem hjelt til í borginni við rússneskunám. Hafði honum einnig, vegna þess hve ráðgefandi hann þykir, verið skipað sæti í föruneyti Ljenzherrans til Chornobyl. Fyrsta ráð verkfræðingsinss var að halda í Lövruna að skoða múmíur og reyndist það vel.

Kyiv, Ukraine
Gullslegnar næpur og obilesk.

Lavra er helsta vígi kristilegns úkraínsks rjetttrúnaðar og í bland við gullslegna næputurna eru þar djúpir hellar með fornum smurðum munkum. Þar inni er þröngt og kolniðamyrkur. Með kertaljósið eitt að vopni er talsvert vandasamt að klofa yfir guðræddar babúskurnar sem krjúpa þar við sinn uppáhalds munk og biðla til skapara síns af mikilli andakt. Ekki var örgrannt um að Ljenzherranum liði þarna eins og illa gerðum hlut og þegar á yfirborðið var komið var ákveðið að væri komið af helgidómum og gerður skildi út leiðangur til að finna og neyta öls. Eftir óþarflega mikið vesen fannst loksins bjór og í fögrum grænum garði ræddu leiðangursmenn landsins gagn og nauðsynjar, kvenmannslíkamann í heild sinni og framlag hans til nútíma þjóðfjelags.

(Fyrir tilviljun hafði leiðsögukonan, sem teymdi oss um hellana, verið á svo til sama tíma og Ljenzherrann í Ostrog-klaustrinu í Svartfjallalandi síðastliðið haust. Þar hafði Ljenzherranum reyndar liðið ennþá óþægilegar innan um grátandi pílagrímana og skrítinn þótti honum sá siður að aldrei mætti snúa baki við dýrlingunum. Ganga þurfti rúkkvarts út úr þeim herbergjum þar sem þeir voru geymdir.)

Kiev, Ukraine

Að þessu loknu var ákveðið að halda í skoðunarferð um dæmigert sovjetskt ghettó þar sem mikill fjöldi fólks dregur fram lífið í skriðmótasmíðuðum og stöðluðum blokkum. Eftir að hafa velt oss upp úr eymd þessari var farið að sleikja út um, á ákveðnum indverskum stað sem Ljenzherrann og hans sjerstaki einkalæknir mæltu sjerstaklega með. Snemma var haldið til rekkju og sofnuðu Ljenzherrann og hans sjerstaki einkalæknir eins og litlir englar,með ipoda í eyrum og bjór í eins líters plastflöskum í fanginu, sem þeim hafði ekki enst meðvitund til að klára kveldið áður. Dásemi skrúfutappa er mikil.

Kyiv Ukraine

Engin ummæli: