laugardagur, 23. september 2006

Ljenzherrann, sá mikli gourmésan sem hann nú er, kann ákaflega vel við sig í stórmörkuðunum hjerna í Sviss. Hann svífur um verzlanirnar eins og ánægð býfluga og týnir ýmislegt góðgæti ofan í körfuna sína. Úrvalið er stórkostlegt og verðið gott. Ítölsk vín og hráskinka, frönsk paté og kartöflur, svissneskt grænmeti og ostar. Mmmmmm. Steininn tók þó úr er Ljenzherrann var á höttunum eftir eksótískum kryddum í sitt fræga ragú, því þarna í kryddhillunni rakst hann á Islänisches Geysir- und Meersalz. Íslenska hjartað sló þrjú aukaslög og Ljenzherrann greip eina dollu af Íslandssalti og hampaði því eins og hann hefði verið að taka á móti nóbelsverðlaunum. Ljenzherrann opnaði dolluna laumulega og dró andann djúpt. MMMMM lyktin! Ljenzherranum leið eins og hann stæði á yztu nöf á brimsorfnum kletti og væri að draga inn andann eftir að hafa boðið sjálfu Atlandshafinu birginn með digurbarkalegri röddu sinni, meitluðu tungutaki og alþjóðlegum skírskotunum. Þessi landvættur Íslands rankaði við sjer stuttu síðar og eftir að hafa áttað sig á staðsetningu sinni ljet hann kreppta hnefann síga niður með síðunni og tók til við að rölta um og segja öllum sem hann hitti frá ágæti íslenzkrar náttúru, og þess salts sem þar væri verkað. Ljenzherrann varð fljótlega var við það að öfund var farin að gera vart við sig í verzluninni. Í grænmetisdeildinni var gamall kall að verzla sjer paprikur í soðið sem sagðist ekki gefa túkall út á þetta salt og í hreinlætisvörunum var kona sem gerðist svo frökk að þykjast ekki vita hvar Ísland væri. Það fauk í Ljenzherrann og ef hún hefði verið með plástur hefði Ljenzherrann verið vís til þess að rífa hann af og sáldra yfir kerlu íslensku hvera og sjávarsalti. Ljenzherrann ljet sjer þó nægja að formæla henni á íslensku með því að óska henni gleðilegra jóla og farsæls komandi árs. Þetta hljómar kanski ekkert svo svakalega, en til hvers að vera að nota ljót orð ef enginn skilur mann hvort eð er?


Isländisches Geysir- und Meersalz

Ekki nóg með að hægt sje að gera gott ragú betra með þessu salti, heldur geta smásálir á fjarlægum slóðum slegið örlítið á heimþrána með því að laga sjer örlítinn sjó til að busla í baðkarinu sínu.

Engin ummæli: