þriðjudagur, 22. ágúst 2006

Á vinalegu gistihúsi í einum af eldri hlutum Zürichborgar er framreiddur morgunmatur. Þegar Ljenzherrann staulaðist inn í matsalinn einn morguninn kom maður askvaðandi og mælti. ,,Guten Tag, Ich bin der Slavonian Grebe und Ich mache Frühstück mit Stolz." Síðan var hann rokinn til að glóða brauð handa gestum sínum. Á íslensku myndi þetta útleggjast sem “góðan daginn, ég er Óðinshaninn og ég reiði fram morgunverð með stolti". Óðinshaninn er grannur maður um þrítugt, snar í hreyfingum, snaggaralegur, með ögn grimman munnsvip og stingandi augnaráð. Óðinshaninn er örlítið valtur í skrefi að hætti töffara, snoðaður og gengur í svörtu. Þröngar gallabuxur og þröngur bolur er fatnaður sem hann virðist kunna vel við sig í. Maður sem Óðinshaninn er reyndar líklegri, að Ljenzherrans mati, til að sjá um tattúveringastofu en morgunverðarhlaðborð og ekki yrði Ljenzherrann hlessa ef hann sæi honum bregða fyrir bak við barborðið á bar fyrir öfuga. En þannig er nú tíðarandinn hjer í Zürich og allir fá sín tækifæri, líka töffarar sem frá blautu barnsbeini hefir dreymt um að sjá um morgunverðarhlaðborð.

Á gnægtarborði Óðinshanans kennir ýmissa grasa, eggjakaka, steiktar pylsur, brauð, sultur, marmelaði, ostar, kaffi, te og ekki má gleyma dýrindis skinku úr hans eigin framleiðslu. Óðinshaninn unni sjer ekki hvíldar og var sýnilega annt um það að gestum líkaði morgunmaturinn, sem hann leggur sálu sína í, hvern dag á milli 6:30 og tíu. En það var samt ekki fyrr en að síðustu morgunverðargestirnir höfðu þakkað fyrir sig að Óðinshaninn tók til starfa af alvöru. Þá setti hann upp latexhanzka, togaði þá upp fyrir olnboga og tók sko til við að þrífa. Hann greip tusku í hvora hönd og eins og ástríðufullur tangódansari snjerist óðinshaninn í kringum borðin og skrúbbaði eins og hann ætti lífið að leysa. Hendur hans náðu slíkri ferð að þegar hann lyfti tuskunum upp frá borðunum rjeði hann ekki almennilega við að bremsa þær af, og tók örlítinn sving á meðan líkaminn var að eta upp hverfiþungann. Í hvert skipti sem þetta gerðist leit Óðinshaninn einbeitur upp í loftið, eins og til að þakka æðri máttarvöldum fyrir náðargáfu sína og svo leit hann montinn í kringum sig, rogginn með enn eitt tandurhreint borðið, sem áður hafði verið útatað í brauðmylsnu, sultu eða einhverju þaðan af verra. Síðan greip hann gólfmoppuna og skipti úr ástríðufullum tangó yfir í tignarlegan vals. Óðinshaninn fór sem stormsveipur um salinn í nafni hreinlætissins feykti hann öllum stólum frá sjer.

Þegar allt var orðið hreint og fínt settist Óðinshaninn við uppáhalds borðið sitt og af sýnilegri nautn hámaði hann það í sig sem eftir hafði orðið af hans gómsætu eggjaköku. Hverjum bita stakk hann upp í sig af sýnilegri nautn. Að þessu loknu kveikti hann sjer í cigarette og horfði með fjarrænu augnarráði yfir matsalinn sinn. Enn einn morguninn var liðin, enn ein rósin var komin í hnappagat Óðinshanans.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

top [url=http://www.c-online-casino.co.uk/]uk casino online[/url] hinder the latest [url=http://www.realcazinoz.com/]free casino games[/url] free no store bonus at the chief [url=http://www.baywatchcasino.com/]casino games
[/url].