fimmtudagur, 24. ágúst 2006

Húsnæðisleit hjer í Zürich er aldeilis ekki dans á rósum. Leiguíbúðirnar renna út sem heitar lummur og er það jafnvel sigur út af fyrir sig að gerast svo frægur að fá svo mikið að skoða íbúðirnar. Slíkar uppákomur eru fjölmennar og í hverju skúmaskoti leynist einhver sem er að kanna kosti og galla. Hvarvetna glymur svissþýskan, sem sameinar Svþýsku og harðmælgi arabískra ræskinga. Svissararnir hika ekki við að fá orð að láni og ænskur tónn og hrynjandi er síðan notaður við að koma herlegheitunum til skila.

Húsnæðisleitin hefur dregið Ljenzherrann á forvitnilegar slóðir og er Ljenzherrann meðal annars búinn að kíkja upp á háaloft hjá eldri konu sem stundar nálarstungur í kjallaranum, en frábað sjer þó útúrgataðan pönkara sem leigjanda og í “STUDIO” hjá þrifalegri pólskri maddömu sem verið er að fleygja úr landi. Rétt áðan var Ljenzherrann að skoða hjá Dr.Dirrk Kurzennbuch og vill Dr.Kurzennbuch ólmur og uppvægur láta Ljenzherranum íbúð sína í tje. Engan samning þarf að sögn doktorsins og eina skilyrðið fyrir búsetu er að húsaleigureikningar á nafninu Donnald Donnahue sjeu greiddir á gjalddaga. Donnald Donnahue er sum sje hinn eiginlegi leiguaðili íbúðarinnar, og er hann einnig skrifaður fyrir allri rafmagns og gasnotkun, sem að sjálfsögðu ber að greiða samviskusamlega, hvern mánuð. Þegar Dr.Kurzennbuch var spurður út í þennan dularfulla einstakling, Donnald Donnahue, sagðist doktorinn aldrei hafa hitt hann, en þeir hafi þó tvisvar rabbað saman í síma. Donnald Donnahue ku víst ekki sýna sig oft í Zürich eftir að hafa helgað sig því að reka knæpuna “Smugglers Inn,” einhvurstaðar í Hollandi.

Einhvurstaðar segir að ef eitthvað sje of gott til að vera satt þá...... uh... sé það ekki satt og því er Ljenzherrann efins um að hann muni taka þessa íbúð, þó hún sje langt undir markaðsverði, sagan sje góð og allir aðilar málsins heiti stórkostlegum nöfnum.

Engin ummæli: