þriðjudagur, 18. júlí 2006

Ljenzherrann mun eyða seinni hluta júlí í að þeysa um óbyggðir Austurlands á sexhjóli. Sexhjólið er án hliðarvagns og þó drjúgur skildingur hljótist af, þykir Ljenzherranum miður að missa af Belle & Sebastian tónleikunum. Ef til vill getur hann þó troðið sjer á tónleikana á Borgarfirði Eystri, og þætti honum slíkt fullnaðarsárabót.

Ljenzherrann hefir gert töluvert af því í sumar að þvælast um hálendið og þar af leiðandi gist nokkrar næturnar í fjallaskálum. Allir eiga þeir það sameiginlegt að státa af kojum til að spara pláss, en einungis örfáir hafa öryggishandrið í efri kojunni. Varð þetta Ljenzherranum umhugsunarefni eina nóttina er hann lá og reyndi að festa svefn í slíkri slysagildru. Varð honum hugsað til þess að aldrei hefir hann rúllað fram úr lokrekkju sinni heimavið, og hví skyldi hann rúlla framúr einmitt nú???

Ljenzherrann setti fram tilgátu um það að eiginleikinn til að detta fram úr rúmi í svefni hafi ræktast úr mannkyninu. Það er, að þeir sem hætt hafi verið við því að detta fram úr hafi flestir orðið ófærir um að fjölga sjer í kjölfar slíkra slysa, eða þá að þeir hafi einfaldlega orðið sjer til slíkrar skammar við það að detta fram úr, að hið gagnstæða kyn hafi ekki litið við þeim í kjölfarið. Hvort að hið sænska velferðarmódel, IKEA, geri þessum erfðagalla kleyft að grassera skal ósagt látið, en til öryggis spáir Ljenzherrann örlítið hraðari hnignun mannkyns en áður.

Engin ummæli: