föstudagur, 23. júní 2006

Ljenzherrann hefir land að mæla
Hornsteinninn að hinni áunnu geðveiki Ljenzherrans var lagður sumarið 2000, þegar Ljenzherrann vann á útvarpslausum valtara. Að láta slíkann mann keyra fram og til baka á þriggja kílómetra hraða í tólf tíma, einann með heilanum í sjálfum sjer ætti að varða við hegningarlög. Nýtt geðsýkistímabil er nú hafið þar sem Ljenzherrann eyðir nú dögum sínum, óáreittur og spakur uppi á Hellisheiði við landmælingar. Þar nagar hann kæfubrauð úr mal sínum og gengur örna sinna á sama hátt og forfeður hans gerðu árhundruðum saman á þessari þjóðleið. Þar má sjá hann arka um og telja samviskusamlega tuttugu skref áður en hann nemur staðar og skrásetur staðsetningu sína út frá gangi gervitungla. Ljenzherrann finnur hvernig sýrustigið í höfuðkúpu sinni hríðfellur með hverjum deginum og er hann nýlega búinn að glotta hringinn yfir skilti sem hann sá utan á húsi. Þar var um að ræða trjesmiðju hins nafntogaða Magnúsar F. Jónssonar, en á skilti þessu stóð skýrt og skorinort: Magnús F. Jónsson, trjesmiðja og skaptagerð.

SKAPTAGERÐ!!!!
Í tvo daga erLjenzherrann búinn að arka um Hellisheiðina og glotta yfir þessu orði. Fyrst um sinn voru þetta ákaflega saklausar hugsanir um það hvort að þar væru gerð mörg axarsköpt. Það má jú svo sem glotta að minnu en því. Síðan kláruðust rafhlöðurnar í ipodinum og þá fór Ljenzherrann að velta því fyrir sjer hvort skaptagerð sem þessi væri ekki kjörinn vinnustaður fyrir klaufa. Síðan fór Ljenzherrann að velta því fyrir sjer hvort að eyjan hans, Ísland, væri sjálfri sjer næg um sköpt og í rökrjettu framhaldi birtist alþýðuhetjan Magnús F. Jónsson honum ljóslifandi fyrir sjónir, þar sem hann tók á móti riddarakrossi hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir óeigingjarnt starf sitt í þágu bættrar bakheilsu og vinnuverndarsjónarmiða. Jújú... Það næsta sem Ljenzherranum datt í hug var að sjálfsögðu það að í öllum gostappa- og smsleikjum væru aðalverðlaunin sköpt að eigin vali. Alheimsdrottingin Unnur Birna var farin að að ganga við skapt, til að hrasa ekki, og í háfleygustu dagdraumunum var forseti Íslands stoltið uppmálað að afhenda erlendum þjóðhöfðingjum sköpt úr skaptagerð Magnúsar F. Jónssonar, í virðingar- og kveðjuskyni.

Þar sem þetta var orðið alveg agalega mikið af sköptum þurfti skaptagerðarmeistarinn Magnús F. Jónsson að taka sjer nema og aga þá til í skaptagerðarlistinni. Og Magnús F. Jónsson var harður, en sanngjarn húsbóndi, sem hikaði ekki við að hnýta í nema sína, ef honum mislíkaði handbragðið. "Kallarðu þetta skapt!!! Þetta lofaði góðu, en gæti ekki einu sinni orðið fuglaprik!!!" og síðan myndi hann brjóta ófögnuðinn á læri sjer. Með óttablandinni virðingu fyrir meistara sínum, gerðu skaptsveinar Magnúsar F. Jónssonar sitt besta til að gleðja meistara sinn með hinu fullkomna skapti, en hvernig er svo sem hægt að geðjast manni sem er þeirri náðargjöf gæddur, að geta gert sívalt úrvalsskapt úr hinni kræklóttustu hríslu???

Magnús F. Jónsson, og allir sem svo mikið hafa heyrt um hann getið, eða brúkað hans ágætu sköpt á ýmsum amboðum eru beðnir innilegrar afsökunnar á færslu þessari í heild sinni.

Engin ummæli: