fimmtudagur, 1. júní 2006

Ljenzherrann af Kaffisterkt er nú í óða önn að ganga frá lausum endum varðandi brautskráningu sína nú í sumar svo og umsóknir í aðra skóla. Þeir sem reynt hafa vita, að það að sækja um í erlenda háskóla er svipað að umfangi og inntökuprófið í skriffinnskuskólanum í Bruksjelís. Þær eru því orðnar margar ferðirnar hjá Ljenzherranum inn á nemendaskránna eftir hinum ýmsu pappírum sem skyndilega verður þörf, og skulu öll skjöl rituð með úrvals sortulyngsbleki á vandað brjefsefni og vottaðir ábyrgum aðilum.

Í dag vantaði Ljenzherranum hins vegar eitthvað alveg svo sjerstakt að dömurnar í Nemendaskránni áttu það ekki til í handraðanum. Ljenzherrann var því teymdur inn á lítið skrifstofutetur á afviknum stað og þar hírðist bókabjeus með gleraugu og virtist una sjer vel innan um hillusamstæðurnar, sem þöktu alla veggi frá gólfi til rjáfurs. Ljenzherrann rjetti honum útprentaðan tölvupóstinn þar sem talin voru upp þau gögn sem vataði í þetta skiptið og Ljenzherrann sá strax á manninum að honum þótti miðinn eftirsóknarverður í safnið sitt. “Jamm, já, jamm, já....” umlaði maðurinn og dró síðan út skúffu og með lyklaborði undan púltinu sínu, setti upp einbeittan svip og byrjaði að hamra á það með vísifingrum hvorrar handar. Fyrir hvern staf sveiflaði hann höndunum í þokkafulla hringi og barði svo takkana á bólakaf ofan í lyklaborðið, líkt og hann væri að stimpla hvern staf ofan í málmstöng sem Ljenzherrann gæti síðan varpað yfir á meginlandið með valslöngvu.

Ljenzherrann notaði tímann á meðan maðurinntók á því við ritstörf til að líta í kringum sig. Varla var annað en hægt en að dást að skrifborðinu út frá verkfræðilegu sjónarmiði, en á því var fimmtán sentimetra jafnfallið drasl, svo fullkomlega jafndreift að ætla mætti að skjölum og pappírum hefði verið sáldrað eins og nýföllnum snjó á þetta skrifborð af æðri máttarvöldum. Hillurnar steyptust sem þverhnípt björg niður alla veggi, fullar af ýmiskonar hlutum, svo sem tómum maltdósum af mismunandi þróunarskeiðum maltextraktst, möppum, innanhússpóstsumslögum og lausum blöðum. Það sem vakti þó sjerstaka lukku hjá Ljenzherranum var símaskrá frá 1992 og nokkrar möppur merktar “afbrigðilegar umsóknir”. Ljenzherrann gat ekki varist glotti og var var kominn á bólakaf í spekúlasjónir um það hvenær umsókn hljóti þann vafasama heiður að teljast afbrigðileg. Loksins ljetti lyklaborðstangónum og gröfurnar sem voru fyrir utan gluggan að fleyga fyrir grunninum á háskólatorginu öðluðust álika tómlegan takt og tveir fílar í leiðangri. Maðurinn snjeri sjer svo að Ljenzherranum, rjetti honum pappír, sagði “Jæja” og hóf að gæða sjer á álpappírsklæddum heimansmurningi.

Engin ummæli: