fimmtudagur, 27. apríl 2006

Ljenzherrann varð fyrir þeirri óþægilegu lífsreynslu að lággeislar beggja framljósanna sviku hann. Eftir að hafa ekið annað hvort í myrkri, eða með ljósin háu um nokkurt skeið afrjeð hann að koma við á bensínstöð að kaupa nýjar perur og setja þær í. Við slíka eksersísu þarf að taka rafgeyminn úr bílnum og við það núllstilltist klukkan. Ljenzherranum reiknast svo til að líkurnar á því að bæði framljósin yfirgefi þennan heim samtímis sjeu það hverfandi litlar að hann geti með með 95% öryggi talið að teikn sjeu á lofti. Ljenzherrann hefir því ákveðið að í heiminum sje nú komið nýtt tímatal og upphafspunktur þess sje þegar klukka ökutækisins fór að ganga aftur, eftir að rafgeymirinn hafði verið tengdur.

Góðir hálsar, klukkan er nú 04:39 á öðrum degi og allt á undan hinum fyrsta degi skal nefnast hið “myrka nón”.

Ljenzherrann mun senda frá sjer yfirlýsingu von bráðar um tylli og helgidaga í hinu nýja tímatali. Almenningur er vinsamlegast beðinn um að sýna samvinnu ef vinnuflokkur í L-merktum samfesttingum skyldi banka upp á, til að gera upptæk gömul dagatöl, dagbækur eða annað slíkt sem minnt gæti á hið myrka nón.
Slútt með sjerdeilis virðingu,
Ljenzherrann af Kaffisterkt.

Engin ummæli: