þriðjudagur, 4. apríl 2006

Ljenzherrann stóð sig að því rjett áðan, þegar hann var að reyna að sofna, að sakna gamla bílsins síns.


Bíllinn hafði glatað eiginleikum sínum til torfæra, þar sem brotið var í honum framdrifið. Fyrir vikið þurfti hvorki mikla hálku né snjó til að Ljenzherrann sæti fastur á sljettustu bílaplönum. Pallurinn var jafn götóttur og svissneskur ostur og bíllinn var fastur í háuljósunum. Götótt pústkerfið hafði engin roð í 6 strokka dísilsleggjuna og á köldum morgnum gerði bíllinn gott betur en að vekja allt hverfið með dómsdagshávaða, hann kæfði það líka í reyk. Ekki var hægt að læsa hurðinni bílstjóramegin og útvarpið hafði fyrir margt löngu kvatt þennan heim. Útvarpsleysið kom að vísu aldrei að sök, því fullt starf var að snúa stýrinu og trampa á pedulum þannig að skrjóðurinn hjeldist á veginum.

Þetta var sum sje ekkert sjerstaklega týpískt námsmannafarartæki, enda varð trukkurinn goðsögn á háskólabílastæðinu. Ekki þó fyrir ljótleikann einan og sjer, heldur ef til vill frekar fyrir gráa skífusímann sem tróndi eins og konungur ryðhrúgunnar, úr hásæti sínu ofan á mælaborðinu.

En jafnvel þó svo Ljenzherrann hafi aldrei þvegið þessa druslu sína þetta ár sem hún var í hans vörzlu, þá unni hann henni eins og skepnu af holdi og blóði, enda hafði hún skap sem slík. Ljenzherrann sá aldrei eftir olíunni í gripinn, hvorki dísilnum, nje smurinu, en þetta tvennt þambaði sá gamli í jöfnum hlutfullum.

Það fylgdu jú ýmis hlunnindi ökutæki sem þessu, til dæmis þegar Ljenzherrann keypti sjer notaðan námsmannasófa. Þá fór hann á trukknum, ásamt góðri vinkonu sinni, og sótti sófann. Sófanum skelltu þau á pallinn og þar sem veðrið var hið bezta varð úr að stúlkan sat bara á sófanum á leiðinni heim. Vakti fyrirtækið jafnvel meiri athygli en ella þegar Ljenzherrann þeysti um strætin með gauragangi og látum.

Bíll þessi var í vægast sagt hrörlegu ástandi þegar Ljenzherrann seldi hann. Tvö og hálft tonn af japönsku brotajárni, gætu sumir sagt, en fimmtíuþúsund krónur rötuðu samt í vasa Ljenzherrans. Bölvaðir blóðpeningar.

Engin ummæli: