miðvikudagur, 1. mars 2006

Öskudagur. Einn, tveir og bóhem.
Ljenzherrann strengdi þess heit á nýju ári að vera meira bóhem í dag en í gær. Á fyrstu mánuðum ársins ljet hann sjer nægja að vera laumubóhem. Áðan tók hann þó fyrsta skrefið til bersvæðis-bóhemisma með því að draga tölvu sína upp og rita á hana meðan hann saup Café á opinberum stað. En menn verða barasta ekki einn, tveir og bóhem! og þetta veit Ljenzherrann. Ljenzherrann vill síður en svo verða sjer til skammar með óbóhemísku hátterni innan um rjett til borna bóhema, sem eru etv. með áralanga reynslu af hangsi og getað lifað mánuðum saman á og samræðum um málefni andans.
Sannur bóhem þrífst best á Caféhúsi og sötrar sitt Café löturhægt því hann lifir samkvæmt því lögmáli að ekki nokkrum Caféhúsaeiganda geti verið stætt á því að fleygja sjer á dyr, svo lengi sem örlítil lögg af Café sje í bollanum. Sumir þessarra manna eru líka búnir að safna reykingalykt í fötin sín í mörg ár og kæra sig lítt um að einhver buxnaskjóni komi og eitri loftið á uppáhalds Caféhúsinu þeirra, með dægurblaðri og arielfýlu. þess vegna hætti Ljenzherrann sjer ekki alveg strax á Caféhús, heldur ákvað að æfa sig með því að tylla sjer feimnislega niður í Björnsbakaríi og pikka þar inn á tölvu hugleiðingar manns sem er forvitinn um lífið og tilveruna.

Innan um grímuklædd börnin í Björnsbakaríi, sem sungu og öskruðu í von um sætabrauð, sat þar einn maður í dag, og reyndi að vera bóhem. Í skarkalanum reyndi Ljenzherrann hvað hann gat til að halda uppi á bóhemísku æðruleysi en undir lokin varð það honum um megn, þannig að hann braut heilagasta boðorð bóhemísks lifernis, teygaði kaffibollann sinn og rauk sjálfviljugur á dyr. Það er greinilega ekki allra að vera bóhem á kleinubasarnum hans Björns Bakara.


Er hægt að bóhema um of?? Fernand Dupontel er einn virtasti bóhem veraldar og er með bækistöðvar á þessum bekk í Montmartre. Sagnir herma að þegar Fernand Dupontel sé hvað mest bóhem geti hann látið einn bolla Café duga sjer í átta klukkustundir.

Engin ummæli: