miðvikudagur, 22. mars 2006

Andvaka

Ljenzherrann að nota rafmagnssög til að saga flísar í nýja eldhúsið sitt. Það er svolítið fullorðins.

Ljenzherrann er andvaka og situr og hlustar á herra Young. Tuttugu og fimm ára ára gamall er Ljenzherrann fullorðinn gegn eigin vilja. Reyndar er talsvert síðan Ljenzherrann fjekk fyrsta fullorðins svitakastið. Það var þegar hann gekk út úr Bónusverslun með tvö kíló af kartöflum í annarri og heimilispakkningu af klósettpappír í hinni. Svo sem ekki í fyrsta sinn sem hann labbar þaðan út með annað hvort kartöflur eða skeini, en svitinn spratt fram þegar hann fattaði að þetta var hann að kaupa af eigin frumkvæði og til einkaneyzlu.

Ljenzherrann hefir líka tekið eftir því hvernig upplifan hans breytist með tímanum. Eitt sinn fylltist hans litla hjarta af tilhlökkun þegar jólaskraut og páskaegg fóru að sjást í verzlunum. Eftir tæpa tvo áratugi á skólabekk valda þessar sýnir Ljenzherranum hinsvegar innbrenndri geðshræringu og kvíða. Jólaskraut og páskaegg (og stundum Verslunarmannahelgar) þýða bara eitt í hans huga, PRÓF!!

En það sem hræðir Ljenzherrann mest er hröðun tímans. Sumar í lífi barns er sem eilífð, en rútínubundið fullorðinslífernið er skrímsl sem hámar í sig heilu árstíðirnar með góðri lyst og það versta er að þetta skrímsl verður sífellt hungraðra og hungraðra og hungraðra.


Edit 22.03 kl 1442: Bætti við "og hungraðra og hungraðra"

Engin ummæli: