fimmtudagur, 16. febrúar 2006

Nýrómantík í tilefni nýliðins Valentínusardags
Ljenzherrann er andvaka vegna prófs á morgun í Fouriergreiningu og hlutafleiðujöfnum. Í stað þess að nýta andvökuna til lærdóms situr hann og gufusýður á sjer óæðri endann í leðurlíkissófa sínum. Eftir að hafa starað út í tómið drjúga stund var Ljenzherranum farið að leiðast og ákvað þá að reyna að vinna örlítið á tollinum úr Frakklandsferðinni. Eftir tvo bjóra var Ljenzherrann kominn með roða í kinnar og milli þess sem hann gretti sig í rjettu hlutfalli við innlifan söngkonunnar í laginu "Lazy Line Painter Jane" barmaði hann sjer sárlega yfir þeim skuldum og skyldum sem aftra honum frá því að lifa lífinu eftir eigin hentisemi. Í stað þess að fá að flakka frjáls um heiminn og færa í orð eigin upplifan af framandi menningu, í bland við hugrenningar sínar og lífsspeki, munu hans sennilegast bíða þau örlög að rotna lifandi í básaskrifstofu. Hver jól mun hverfið hans glóa í myrkri. Hvern síðsumarslaugardag mun hann vakna við dynjandi slátturvjelakór og hvert föstudagskvöld mun angan gasgrillaðra lambaframpartssneiða liggja í loftinu.
Ljenzherrann mun smátt og smátt deyja innra með sjer. Ljenzherrann mun lifa í þeirri blekkingu að heimurinn sje ekki stærri en viðjur vana hans og að ferðalög gerist ekki betri en það, að aka malbikaðan hringveginn með fellihýsi aftan í nýbónuðum jeppa.

Sumir ranka þó við sjer og átta sig á því að þeir geti veitt sjálfum sjer meiri ánægju með því að gera það sem þeim sýnist, en að standa í sífelldum eltingaleik við viðurkennt gildismat. Þeir menn sem slíkt gjöra, eru gjarnan nefndir ógæfumenn af þeim sem veita tilveru sinni tilgang með veraldlegum hlutum. Ef til vill sitja þeir þó einir að sannri hamingju.Engin ummæli: