mánudagur, 13. febrúar 2006

Ljenzherrann langar til að sýna ykkur sessunaut sinn í lestinni frá Chamberie til Parísar:


Er hann ekki fínn??

Fyrir örfáum dögum síðan tók Ljenzherrann lest frá Moutiers til Parísar, en þurfti að skipta um lest í Chamberie. Ljenzherrann settist inn í lestina í Chamberie og beið þess að hún færi af stað. Aðrir ferðalangar voru að tínast inn og þeirra á meðal lítill og snyrtilegur maður sem settist síðan gegnt Ljenzherranum í sæti. Ljenzherrann var bara nokkuð lukkulegur með sessunautinn, enda á öllu von hjer á öðru farrými.

Eftir að hafa fylgst útundan sjer með manninum setjast heldur Ljenzherrann áfram að horfa út um gluggann, en bölvar í hljóði yfir að hafa ekki fengið sæti hinum megin í lestinni því þá hefði hann haft útsýni yfir ys og þys brautarpallsins. Ljenzherrann tekur þó fljótlega eftir því að sessunautur hans er eitthvað órólegur og er alltaf að vinka einhverjum úti á brautarpallinum. Ljenzherrann ályktar að hann hljóti að vera að kveðja börnin sín og heldur áfram að virða fyrir sjer gamla franska lestarvagna.

Klukkan er orðin tuttugu mínútum yfir tólf og hraðlestin til Parísar ætti að vera lögð af stað. Sessunauturinn hefur vakið athygli Ljenzherrans með sí furðulegra hátterni sínu. Maðurinn kíkir út um gluggann með reglulegu millibili, kíkir á úr sitt með miklum tilþrifum og ypptir síðan öxlum á meðan hann heldur augnsambandi við einhvern úti á pallinum og vinkar síðan taugaveiklingslega. Ljenzherrann er orðinn forvitinn. Hverjum gæti hann verið að vinka, er það konan hans með börnin þeirra þrjú??? Hvernig lítur kona svona manns út??? Ljenzherrann ákveður að kíkja. Ljenzherrann stendur upp og kíkir til hliðar meðan hann þykist vera að fara úr úlpunni.

Vissulega stóð kona á brautarpallinum sem skiptist á vinkum við sessunaut Ljenzherrans, en hún var bæði gráhærð og gömul. Ljenzherrann settist aftur og tók eftir því að sessunauturinn, sem hjeðan í frá skal vera nefndur Elling, var að raða þremur blöðum snyrtilega á borðið fyrir framan sig. Að því loknu, kíkti hann aftur á klukkuna og gaf það síðan til kynna með látbragði að honum þætti það ákaflega undarlegt að hraðlest á vegum hins virðingarverða lestarfjelags SNCF hjeldi ekki áætlun. Síðan vinkaði hann og átti í vandræðum með hvað hann ætti að gera við hendurnar sínar eftir það.

Loksins heyrðist vinalegt ýl og hurðir lestarinnar lokuðust, Elling var sýnilega ljett en um leið og lestin rann rólega af stað vinkaði hann móður sinni eins og honum frekast var unnt. Móðirin vinkaði á móti og Ljenzherrann gat ekki stillt sig um að fella örfá tár á þessu tilfinningaþrungna augnarbliki.
Heimurinn er stór og ógnvekjandi staður fyrir lítinn mömmustrák.

Ljenzherrann náði sjer nú í dagblað og gerði tvö göt í miðopnuna, svo hann gæti njósnað. Elling virtist ánægður með sig, og fjarrænt augnarráðið og svipurinn sagði "Já þetta get ég" og eftir að hafa horft út um gluggann um stund náði Elling í eitt af tímaritunum sínum, en á borðið hafði hann sett þrjú tölublöð af "vísindin og lífið". Ljenzherrann brosti, þetta var orðið of týpískt. Taugaveiklaður snyrtipinni í prjónaðri kaðlapeysu yfir blárri skyrtu og með almenningsmiðað vísindarit í höndunum, uppfullu af fyrirtaks fóðri í samsæriskenningar og tilfinningakreppur vegna yfirvofandi heimsendis í fyrirsjáanlegri framtíð.

Við nánari skoðun tók Ljenzherrann eftir þetta var greinilega ekki í fyrsta skipti sem þessi blöð voru lesin því þau voru orðin ansi hreint snjáð. Ljenzherrann brosti síðan enn meira þegar hann rak augun í að þau voru ekki í samfelldri röð, eitt var
février 2003, annað var juillet 2004 og eitt frá í septembre 2005. Þetta voru greinilega uppáhalds blöðin hans og Ljenzherrann var kominn með hugmynd um það hvernig hann gæti stytt sjer stundirnar í þessari fjögurra klukkustunda lestarferðElling að lesa sig til um yfirvofandi loftsteinaregnhríð.

Ljenzherrann ljet njósnablaðið sitt frá sjer og náði í farandkaffið sitt ofan í handfarangurinn Ljenzherrann Ljenzherrann lagði frá sjer galvanísjeraða hitabrúsann og fann hvernig glereygt augnaráð hvíldi á sjer yfir septembre-hefti- af "vísindin og lífið". Ljenzherrann náði í ýmislegt annað drasl úr bakpokanum, sem hann svo raðaði á borðið. Þegar borðið var orðið fullt fjekk hann sjer sopa af kaffinu, dæsti og horfði út í loftið. Síðan ljet hann bollan frá sjer og grúfði sig ofan í njósnadegblaðið. Ljenzherrann sá að þetta uppátæki sitt hafði valdið mikilli skelfingu í sætinu á móti, því
Elling hvessti augun til skiptis á Ljenzherrann og sneisafullan bollann af rjúkandi Ljenzherrablöndu sem hvíldi nú ofan á hinu dýrmæta juillet 2004 tölublaði af "vísindunum og lífinu"

Elling vissi ekki alveg hvað hann átti að gera, ekki gat hann leyst málið þegjandi og hljóðalaust, eins og hann hefði helst kosið, með því að færa bollann, því Ljenzherrann var eins og áður segir búinn að fylla borðið af drasli úr töskunni sinni. En ekki gat Elling heldur horft upp á djásnið sitt í djörfum dansi upp á líf og dauða, þannig að hann fór að reyna að ýta dótinu til, en Ljenzherrann hafði raðað því af svo mikilli hugvitsemi að örlítil hreyfing í einvherja átt myndi henda að minnsta kosti fimm brothættum hlutum niður á gólf. Og alltaf þegar Ljenzherrann leit upp úr blaðinu hrökklaðist Elling með miklum látum í sætið sitt og sökkti sjer á bólakaf ofan í septembre eintakið sitt af "vísindin og lífið".

Eftir nokkrar mínútur fóru gleraugun svo að gægjast aftur upp fyrir hið virðingarverða tímarit "vísindin og lífið" og brátt birtist hendi sem fálmaði sig í átt að kaffibollanum. Alltaf þegar höndin var komin hættulega nærri fann Ljenzherrann sjer ástæðu til að líta upp úr blaðinu sínu og alltaf hrökk hann Elling jafn mikið í kút. Ljenzherrann náði í hitabrúsann sinn og bætti á bollann þannig að minnstu mætti muna að það flæddi upp úr. Útundan sjer sá Ljenzherrann hvernig augun í Elling hefðu smollið úr augntóftunum, ef ekki hefði verið fyrir ferhyrndu gleraugun. Ljenzherrann leit upp og reyndi að kreista fram vinalegt bros og gaf Elling látbragð sem mátti túlka sem: "villtu nokkuð kaffi? Það er í senn mjög bragðgott og hressandi". Elling grúfði sig ofan í blaðið sitt.

Ljenzherrann er maður sem lifir á ystu nöf og fann með sjer að hann væri ekki ennþá kominn á þann stað þar sem litli maðurinn í kaðlapeysunni færi að grípa til ofbeldis þannig að hann ákvað að seilast enn í tösku sína, en í þetta skipti dró hann upp baguette, í fullri lengd, og "jambon" og fór að smyrja sjer samloku ofan á títtnefndu tölublaði hins virðingarverða tímarits, "vísindin og lífið."

Snittubrauð og skinka voru víst dropinn sem fyllti mælinn því í eyrum Ljenzherrans fór að hljóma reiðilestur á frönsku og mörg ný orð bættust í hinn franska orðaforða Ljenzherrans af Kaffisterkt. Ljenzherrann gat ekki annað en dáðst að þeirri útsjónarsemi sem Elling beytti við að raða þessum orðum saman með sem fjölbreyttustum hætti og reyndi að leggja á minnið sem allra flestar beygingarmyndir ógeðfelldari orðanna, svona upp á seinni tíma. Og svo loks þegar Ljenzherrann fjekk sjer rjúkandi kaffisopa eftir ljúffenga samloku hrifsaði Elling til sín bæði vísindin og lífið og strunsaði yfir í næsta vagn.

Engin ummæli: