föstudagur, 10. febrúar 2006

Ljenzherrann af Kaffisterkt játar hjer með fyrir umheiminum að hann á ákaflega erfitt með ákveðinn hlut. Hvað getur ofurmenninu Ljenzherranum þótt svona erfitt??
Jú þessi kurteisislegu samtöl sem einkenna samskipti tveggja einstaklinga sem þekkjast ekki meira en svo að þeir viti hvað hvor annar heitir, eigi sameiginlegan vin/kunninga, búi í sama húsi eða voru í sama skóla fyrir mörgum árum. Á ensku heitir þetta "small talk" og er viðurkenndur hluti af árekstarlausu samskiptamynstri manna á milli.

Ljenzherrann bregst við slíku áreiti með tvennum hætti:
A
Ef hann er búinn að drekka of lítið kaffi þá höndlar hann ekki að svara þessum tilgangslausu spurningum í samtali sem skilur ekkert eftir sig. Hvað þá að hann hafi geð í sjer til að minnast að eigin frumkvæði á veðrið eða eitthvað annað sem enginn hefur sterkar skoðanir á, en þykir sjálfsagt að tala örlítið um. Í þessu ástandi reynir Ljenzherrann að forðast þá einstaklinga sem vitað er til að stofni til slíkra samtala eða, ef hann er gómaður, að afgreiða þau snubbótt á mettíma.

B
Ef Ljenzherrann er búinn að drekka of mikið kaffi þá þykir honum alveg ákaflega fyndið að draga þessi samtöl eins mikið á langinn eins og honum frekast er unnt, alveg þangað til að vandræðalegheitin yfirbuga hinn aðilann og hann flýr á braut. Þá fer Ljenzherrann að hlæja, viðkunnalegi náunginn sem hann nú er.


Mynd 1: kjöraðstæður fyrir mann sem er ekki búinn að drekka skammtinn sinn af kaffi.

Engin ummæli: