mánudagur, 9. janúar 2006

Eins og flestir vita hefir það djúpstæð áhrif á sálarlíf aldraðra hefðarfrúa að þiggja ekki af þeim veitingar. Enda fer Ljenzherrann aldrei saddur í heimsókn til ömmu sinnar því fátt kætir kerlingu meira en að sjá afrakstur margra klukkustunda erfiðis hverfa á örskotsstundu ofan í gapaldið á Ljenzherranum sínum.

Það var svo einn ágætan dag í desember að Ljenzherrann ætlaði að haga sjer eins og sá myndar- og sómapiltur sem hann nú er, og heimsækja sem mest af öldruðum skyldmennum sínum. Ljenzherrann svelti sig í þrjá daga til að valda örugglega ekki neinu skyldmenni alvarlegri sálarkreppu og efasemdum um ágæti eigin randalíns.Eftir þrjár heimsóknir þar sem Ljenzherrann hafði glatt jafnmörg hjörtu með óheyrilegu sætabrauðsáti, var komið að þeirri fjórðu. Ljenzherrann átti í stökustu vandræðum með að leggja bílnum sínum fyrir kækjum og taugaskjálftum, því auðvitað varð hann að hann líka að þiggja kaffi og ábót eins og allir góðir drengir. Ljenzherrann læsir bílnum og man næst eftir sjer í andyrinu á elliheimilinu Grund. Þar ryðst hann inn um dyrnar, arkar að lyftunni og fer að hamast á takkanum. Þar er fyrr settleg vísitölufjölskylda og hinn góði og gegni fjölskyldufaðir brosir vandræðalega til Ljenzherrans þegar sá síðarnefndi snýr sjer á hæl og starir tryllingslega á þá sem með honum bíða.


Að lokum heyrist skarkali frá lyftunni og hurðin á henni er varla opnuð til hálfs þegar eini farþegi hennar, miðaldra kona í æpandi rauðri kápu og varalit í stíl er farinn að öskra vísitölufjölskyldunni gleðilegra jóla. Eftir ákaflega háværar kveðjur snýr konan sjer loksins að Ljenzherranum og horfir stolt á bónus pater famílias og segir síðan hátt og snjallt: "og mikið eru sumir farnir að líkjast feðrum sínum." Ljenzherrann gat ekki annað en tekið undir þetta, af því hann var búinn að drekka svo mikið kaffi og öskraði upp yfir sig að ekki væri nú leiðum að líkjast. Síðan hló hann dátt, smellti kossi á kellu og strunsaði inn í lyftuna.

Á meðan lyftuhurðin lokaðist heyrði Ljenzherrann ábyrga fjölskyldufaðirinn tilkynna það með titrandi röddu að hann kannaðist bara ekkert við "þennan mann."

Engin ummæli: