þriðjudagur, 6. desember 2005

Ljenzherrann af kaffisterkt visiteraði hana ömmu sína laugardaginn sem var. "Mikið var það fallegt af honum" hugsa lesendur með sjer, og víst var það fallegt af honum. Amma þessi er búsett í blokk sem ríkisvaldið hefir af stakri útsjónarsemi fyllt af gamalmennum, svo þau geti haft selskap af hverju öðru.

Á stað sem þessum, þar sem gamalmennafjöldi per fermeter nálgast 1, ríkir eins og gefur að skilja ákaflega sjerstök lykt, (sambland af harðfiski, vestlandslefsu, nætursaltaðri ýsu, hamsatólgum, hangiketi, bjúgum, Old spice, neftóbaki og chanel No5). Og þegar útidyrahurðin á blokkinni opnast blæs þessi konsentreraði gamalmennailmur í fangið á manni og hekluð gluggatjöldin stíga dans, þar sem þau feykjast um í dragsúgnum eins og tifandi strá á stormasömum akri.

Þegar rafeindastýrður dyraumbúnaðurinn hefur lokast á eftir manni grípur Ljenzherrann alltaf svolítið sjerstök flóttatilfinning og hann þarf ætíð að safna í sig örlitlum kjarki áður en hann megnar að bera ásjónu sína á borð fyrir glákuprýdd augu móttökunefndarinnar.

Móttökunefndin samanstendur af þrem til fjórum töluvert öldruðum kerlingum sem tilhelgað hafa elli sína því að sitja fyrir gestum þessa húss og gefa þeim biturt auga. Varla er lyftan svo búin að lokast þegar þær byrja að pískra og pukra.


Síðastliðinn laugardag var móttökunefndin óvenju fjölmenn, fjórir hrægammar á svæðinu, en það er nýtt met. En það sem gerði þessa heimsókn óvenju skemmtlega var það að aðskotahrægammurinn virtist ekki tala neitt nema þýzku og á meðan Ljenzherrann stóð og beið í ormagryfjunni tautaði aðskotahrægammurinn lifandis býsn á þýzku. Ein kerlingin virtist hafa tekið að sjer að þýða hana yfir á íslensku, og hinar tvær áttu ekki orð yfir tungumálahæfileikum vinkonu sinnar.

Ljenzherrann þurfti að taka á öllu sem hann átti til að bæla niður í sjer hláturinn því blótsyrðarununan sem vall út úr þeirri þýzku skolaðist eitthvað til í þýðingunni og varð að ýmsum spurningum eins og hvað klukkan væri, hvort það væri norðanátt eða hvað það væri nú farið að dimma snemma.

Engin ummæli: