miðvikudagur, 14. desember 2005

Þegar piltar verða of gamlir fyrir Drengjakór Reykjavíkur, færast þeir þá sjálfkrafa upp í Karlakór Reykjavíkur? Eða eru þeir skildir eftir á milli vonar og ótta í skelfilegu millibilsástandi? Er ekki nóg með að sveinar á þessum aldri þurfi að kljást við nýtilkominn kynfærahárvöxt og kenndir til eigin eða gagnstæðs kyns, skræka rödd og ótal spurningar um lífsgátuna? Þarf endilega að krydda þessa súpu með afneitun frá Reykvíska kórakerfinu??? Ætti íslenzkt kórastarf ekki að vera uppbyggilegt æskulýðsstarf í stað þess að hrinda óhörðnuðum drenghnokkum frá sjer um leið og þeir missa sína englarödd, til þess eins að geta hirt þá aftur upp nokkrum árum seinna, að því gefnu að í millitíðinni hafi þeir hafi ekki leiðst út í hinn dimma heim fíkniefna, afbrota og vændis í leit að viðurkenningu vegna yfirgengilegrar vanmáttarkenndar sem þeir einir þekkja sem hefur verið afneitað á viðkvæmu aldursskeiði? Hér gæti hin nýkrýnda ungfrú heimur beitt áhrifum sínum, breitt út faðminn og umvafið greyin í kærleika, hlýju og stöðluðu brosi.

Engin ummæli: