mánudagur, 12. september 2005

Eins og áður hefur komið fram dvelur Ljenzherrann á kárahnjúkum við leik og störf (í hlutföllunum 12.5/50). Hálendisloftið gerir honum gott og kennir hann sjer einskis meins af langdvölum sínum í 600 metra hæð yfir sjávarmáli, ef frá er talinn aukinn viðrekstur og eyrnamergsframleiðsla. Hefir hvort tveggja talsvert skemmtanagildi í annars grámyglulegum hversdagsleikanum.

Ljenzherrann gerir þó margt annað við tíma sinn heldur en að reka við og hnoða fígúrur úr eyrnamerg. Hann hyggst til dæmis mæta eitt kvöldið til erlendu verkamannanna hjá Impregilo, vopnaður hágæðahárklístri og myndavél. Af fyrri reynslu sinni veit Ljenzherrann að þeir eru alls ekki feimnir við linsuna, og sjerstaklega ekki ef þeim er lofuð mynd af sjer sem þeir gætu sent brjefleiðis til fjölskyldna sinna í fjarlægum löndum.

Að gefa þeim þessar myndir þykir Ljenzherranum ekki hátt gjald fyrir stórfenglegt safn af portrettum vatnsgreiddra Portúgala og Kínverja.

Engin ummæli: