mánudagur, 18. apríl 2005

Ljenzherrann-hleypur til að gleyma
Helsta takmark líkamsræktarstöðva virðist vera að breyta þyngd þeirra sem þangað mæta. Þess vegna eru þær útbúnar með nákvæmum viktum í búningsklefunum þar sem menn geta fylgst með því spenntir eða súrir hvort þeir eru að ljettast eða þyngjast.

Ljenzherrann mætti til slíkrar stöðvar í dag með það að markmiði að hlaupa úr sjer pirring, kergju og leiðindi. Eftir nokkra kílómetra á tuttugukílómetrahraða á klukkustund var Ljenzherrann orðinn ljúfur sem lamb og var jafnvel farinn að hugleiða það að láta gott af sjer leiða. Hvílík og endemis vitleysa.

Að hlaupunum loknum tók Ljenzherrann til við teygjuæfingar. Ljenzherrann togaði sig og teygði, hneigði sig og beygði. Brátt tók að dimma, skugga eins lyftingatröllsins bar yfir salinn. Ljenzherranum brá eilítið og horfði á hann álengdar, fylgdist með honum skáskjóta sjer í gegnum hurðargættina. Samstundis fuku öll fögur fyrirheit og manngæska út í sandinn. "Mikið hlýtur hann að vera heimskur þessi" hugsaði Ljenzherrann með sjer og forðaði sjer inn í sturtu.

Ljenzherrann er frægur fyrir sín löngu steypiböð, og ef að það er eitthvað sem Ljenzherranum finnst skemmtilegra en að fara í gott steypibað, þá er það að þurrka sjer rækilega á eftir.

Eftir steypibaðið kom Ljenzherrann sjer makindalega fyrir á einum bekknum í búningsklefanum með handklæðin sín þrjú og hóf að verka sig þurran. Einu óf hann um höfuð sjer eins og Sjeik Alíbaba en hin notaði hann til skiptist eftir kúnstarinnar reglum. "mikið eru olnbogarnir þurrir" hugsaði Ljenzherrann með sjer "...og hnjesbæturnar, það er barasta eins og þær hafi aldrei blotnað... þannig á það líka að vera..." Ljenzherrann líktist einna helst pattaralegum fressketti með vefjarhött að sleikja á sjer klofið, slíkur var unaðurinn sem skein úr öllum hans hreyfingum. Þótt Ljenzherrann væri heltekinn hinu dásamlega algleymi sjálfsþurrkunar tók hann eftir því að nafntogaður einstaklingur hjer í borg læddist á vigtina, þessa nákvæmu vigt sem Ljenzherranum varð tíðrætt um í upphafi þessa pistils. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi ef að þessi nafntogaði einstaklingur hefði svo ekki læðst inn á klósettið dvalist þar dulitla stund og laumast á vigtina aftur. Síðan krotaði þessi nafntogaði einstaklingur tvær tölur á móðuna á speglinum fyrir framan sig og þegar Ljenzherrann fór skraufaþurr á stúfana (töluvert seinna) reyndist mismunur þeirra 0,7 kíló. Ljenzherrann sló sjer á lær.

Engin ummæli: