fimmtudagur, 31. mars 2005

Björn og aðrir minna þroskaðir menn.
Björn bankastjóri kemur trallandi inn í bankann í dag. Sjálfvirku hurðirnar virðast hafa meiri ánægju af því að opna fyrir honum en öðrum. Björn brosir Colgate-brosi framan í hreyfiskynjarana til að þakka þeim fyrir vel unnin störf. Björn er í góðu skapi. "Góðan daginn Björn!!" Hrópa stúlkurnar í afgreiðslunni Björn kastar á þær kveðju sog hann sendir þeim Colgate-bros að launum. Sjerstakur aðstoðarmaður hans heyrir í meistara sínum, hleypur til hans og flaðrar upp um hann eins og húsbóndahollur hundur. Björn kastar til hans hatti og frakka.

"Nikkei??!!!!" öskrar Björn
-"11.565,880" svarar skósveinninn
"Nasdaq??!!!"
-"1.973,88"
"Dow Jones??!!!"
-"10.405,70"
"Jenið??!!!"
-"0,57"
"Dollarinn??!!!"
-"61"
"Vísitala neyzluverðs??!!!"
-"241,5"
"Krónan!"
AAAAAHAHAHAHAHAHAHAHAAH!!
"KRÓNAN!!! HÚN SKIPTIR ENGU MÁLI!!" öskra þeir báðir í kór og skella upp úr.
Björn hugsar um það hversu ljómandi frjettir þetta væru nú. Þessi hækkun á vísitölu neyzluverðs hækkaði verðtryggð útlán um hundruðir milljóna. Björn kemst nú í svo ljómandi gott skap að hann getur ekki stillt sig um að steppa á marmaraklæddu bankagólfinu. Gjaldkerarnir vita hvað klukkan slær og draga upp trompetana. Lánafulltrúarnir slá taktinn með flötum lófa á bunka af íbúðalánum með ferskum undirskriftum. Feitlaginn öryggisvörðurinn sækir kontrabassann, sem aldrei er langt undan og skósveinninn sprengir rakettur, knöll og sprautar kampavíni yfir útibúið. Um stund breytist bankinn í söngvamynd frá sjöunda áratugnum og Björn bankastjóri steppar sem hann væri sjálfur konungur dansins. Allt í einu stoppar Björn og viðbragðstíminn hjá starfsfólki hans er nákvæmlega hálf sekúnda, þá eru allir lúðrar komnir undir borð og lífið gengur sinn vana gang í bankanum.

Engin ummæli: