sunnudagur, 6. febrúar 2005

Verkfræðinemar halda ár hvert kennarafagnað svokallaðan, en þá klæðast bæði nemendur og kennarar sínu fínasta pússi og snæða saman góðan mat. Einnig drekka allir ótæpilega og verða sjálfum sjer til skammar. Ljenzherrann líka. .

Samkunda þessi er beinlínis skipulögð þannig að allir drekki sig sem allra fyllsta. Sem dæmi um það má nefna að dregið er til sætis þannig að næsta víst er að flestir enda einir og sjer, einmana innanum ókunnugt fólk. Í slíkum aðstæðum er ágætt að hafa rauðvínsglas fyrir framan sig og vökula þjóna sem bæta á það, eftir því sem þurfa þykir. Ljenzherrann reyndi hvað hann gat að tæma glasið en alltaf skaut upp þjóni með ráðvendnissvip sem bætti á það. Ljenzherrann reyndi ýmsar brellur. Hann reyndi að sæta lagi á meðan allir þjónarnir voru inni í eldhúsi, en það dugði ekki til. Það holdgaðist bara þjónn á miðju gólfinu sem bætti í glas Ljenzherrans og hvarf síðan aftur eftir að hafa kinkað til með svip sem sagði. ,,ég er enskur bryti" Ljenzherranum brá. Hann stóð frammi fyrir svartagaldri, hann teygaði rauðvínið úr glasinu sínu og í algjörri uppgjöf gagnvart æðri máttarvöldum rjetti hann út hendina til að púkinn gæti endurholdgast og fyllt á það aftur.

Sumir virðast forðast þögnina eins og heitan eldinn og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að útrýma henni með því að brydda upp á samræðum. Eftir því sem viðkomandi aðilar þekkjast minna verða samræðurnar þeim mun þvingaðri og jafnvel hinir ómerkilegustu og leiðinlegustu hlutir verða mönnum ástæða til að opna á sjer þverrifuna. Eftir að langa og pínlega þögn kveiknuðu loks samræður á borði Ljenzherrans og snjerust þær að mestu um sameignlega reynslu tveggja sessunauta af því að keyra yfir norðlenska hunda. Þjónarnir höfðu því í nógu að snúast við að fylla á glasið hjá Lenzherranum sem þurfti að hlusta á ósköpin. Brátt komst Ljenzherrann á það stig ölvunar að hann var farinn að blanda sjer inn í samræðurnar. Hann tilkynnti viðstöddum að honum tæki það ákaflega sárt að hafa ekkert til málanna að leggja og lýsti því síðan hátíðlega yfir að til að vinna bót á þessu hyggðist hann fljótlega gera sjer sjerstaka ferð norður í land til að keyra yfir hund eða ja tvo. Í kjölfarið kom löng og vandræðaleg þögn og öllum leið illa. Ljenzherrann glotti.

Snati, frá Klásúlum í vestur Húnavatnssýslu, er einn af okkar fremstu djasspíanistum. Meðal átrúnaðagoða hans eru Herbie Hancock, Duke Ellington, Nat King Cole og lögregluhundurinn Rex. Snata finnst best að eyða tómstundunum í að fara á góða tónleika, sleikja á sjer klofið eða gelta á eftir bílum


Ljenzherrann ljet þjónana vinna fyrir kaupinu sínu og höfðu þeir vart undan að bera í hann. Ljenzherrann var nú orðinn svo dásamlega fullur að hann tók samræðurnar í eigin hendur og píndi sessunauta sína til að spjalla kurteisislega um ýmis málefni sem voru svo agalega leiðinleg að jafnvel hollenski skiptineminn, sem kann ekki stakt orð í íslensku, var farinn leita líknar gegn leiðindunum með því að pota í augun á sjer með hnífapörunum. Aðrir drukku. Ljenzherrann skemmti sjer konunglega og sá hvernig lífsneistinn koðnaði meira og meira niður í sessunautum sínum með hverri mínútunni sem leið.

Allir við borðið voru nú orðnir svo ölvaðir að þeir brustu í söng. Íslensk ættjarðarljóð urðu fyrir valinu og sungið var um horfna tíma og þau heljarmenni sem vekja stolt í brjósti hvers einasta Íslendings.Einn kennarinn brast í grát og tilkynnti viðstöddum að Íslandið fagra væri að sökkva. "Fimmtíu sentimetrar á öld" bætti hann síðan við og snýtti sjer duglega í borðdúkinn. Sessunautur hans reyndi að hugga hann með því að lofa að kaupa svo stóran gúmbát að allir eftirlifandi hundar í Húnavatnssýslum, eystri og vestri, gætu átt þar griðastað.

Ljenzherrann var nú farinn að finna hjá sjer sterka löngun til að tilkynna viðstöddum hve mikið hann væri yfir þá hafinn. Slíkt er merki um að ölvunin sje í þannn mund að bera hann ofurliði. Ljenzherrann af kaffisterkt er þeirrar furðulegu náttúru gæddur að þegar áfengið hefir sigrast á sjálfum Ljenzherranum vaknar persóna til lífsins sem gerir miklar kröfur um að sjer sjeu sýndir viðeigandi mannasiðir og svarar engu nema hún sje ávörpuð Napóleon Bónaparti. Þegar þessi persóna tekur völdin gerir hún jafnan mikinn usla og nýtir valdatíma sinn til fullnustu til að sinna áhugamálum sínum, sem eru vægast sagt litin hornauga í vestrænu samfélagi. Eins og nærri má geta líður Ljenzherrann fyrir það í langan tíma ef að Napóleon kemst til valda og því er til mikils að vinna að halda honum í skefjum. Ljenzherranum lærðist það eitt sinn af gamalli norn, sem hann kynntist í gegnum alþjóðleg frímerkjasamtök, að óbrigðult ráð til að halda bakkusi í skefjum væri að tyggja þurrkaða skeifugörn úr bröndóttum fressketti. Ljenzherrann fer aldrei úr húsi án þess að hafa slíka skeifugörn í pússi sínum því þurrkaðar skeifugarnir eru nefnilega þarfaþing hin mestu og til margra hluta nytsamlegar.

Eftir að hafa japlað á skeifugörninni hresstist Ljenzherrann til muna og til að skemmta sjer hleypti hann selskapnum upp í slagsmál og læddist síðan út. Köttur úti í mýri, setti upp á sig stýri, úti er ævintýri.

Engin ummæli: