mánudagur, 31. janúar 2005

Nú er runninn upp hinn árlega gósentíð framapotara í Háskólanum. Kosningarnar og aðdragandi þeirra er hátíð þeirra sem sem hafa undarlegar hvatir þess efnis að sitja við borð á göngum skólans og bjóða piparkökur eða fletta í gegnum nemendaskrána í leit að einstaklingum sem þeir hafa einhverntíman hitt og angra þá með síendurteknum símhringinum. Þetta þykir þeim gaman.

Símtölin eru yfirleitt með því sniði að kosningahóran rifjar upp allt það sem hann á sameiginlegt með þeim sem hann hringir í (sama hversu ómerkilegt það er) . Hann gerir sjer upp mikinn áhuga fyrir viðmælanda sínum og þegar hann er nýbúinn að lýsa því yfir að honum þyki fátt sárara en að hafa misst við þig tengslin frá því í leikfimitímunum í menntaskóla vendir hann kvæðum sínum í kross og spyr síðan, eins og fyrir algera slysni, hvort viðkomandi ætli ekki örugglega að kjósa "rjett".

Ljenzherrann: Já halló

Benni Laxdal: Já er þetta ekki Ljenzherrann af kaffisterkt?????

Ljenzherrann: Uhhh... jú... (Hver á þessa hressu rödd???)

Benni Laxdal: Blessaður kall!! Benni Laxdal hérna! Vorum saman í Húsó manstu???

Ljenzherrann: Já... (Ha afhverju er Benni Laxdal eiginlega að hringja í mig núna????)

Benni Laxdal: Allt of langt síðan maður hefur heyrt í þér maður!! Bara ekki síðan í samræmdu maður!! Það er agalegt að missa svona kontakt við gömlu félagana, hefurðu það ekki annars gott lagsi?

Ljenzherrann: Já... (missa kontakt??? hann bauð mér ekki einusinni í 16 ára afmælið sitt...)

Einar Laxdal: Já og núna erum við bara báðir komnir í háskóla maður, á blússandi ferð uppávið, ég í lögfræði, pældu í því, og þú bara í bullandi verkfræði er það ekki??? gengur ekki bara vel?

Ljenzherrann: Jú fínt bara (Ætli Benni Laxdal sé að hringja í mig af því honum langar til að verða vinur minn??? Ætli Benni vilji vera vinur minn núna??? Það væri rosalega gaman, hann var rosalega töff, ég man að hann var alltaf með derhúfuna öfuga og hvaðeina)

Benni Laxdal: Bjóst heldur ekki við öðru af kappanum, ætlaði bara svona að heyra í þér sko.... ....heyrðu meðan ég man.... ertu eitthvað að spá í stúdentapólítíkinni????

Ljenzherrann: Nehhh.....

Benni Laxdal: Þá kanski krossarðu við kallinn??? Hann er nefnilega í framboði, berjast fyrir málefnum stúdenta

Ljenzherrann: Já ætli það ekki bara (vill hann þá ekki vera vinur minn, var hann bara að hringja í mig til að fá atkvæðið mitt, svo hann geti orðið áberandi og eignast fræga vini, enga aumingja eins og mig. Ég er einskis verður! Það vill enginn vera vinur minn!!! Ég verð samt að herða upp hugann og hljóma hress, þá hringir Benni Laxdal kanski í mig á næsta ári og þá verð ég undirbúinn og get sýnt honum hvað ég er frábær strákur og þá kanski verðum við vinir! Förum í partý og hann kynnir mig fyrir huggulegum stelpum!!! Já það verður frábært!!!)

Benni Laxdal: Heyrðu takk kærlega fyrir stuðninginn kall!! Við sjáumst vonandi fljótlega!! Blessssssaðurrrrrr!!!!

Ljenzherrann: Já bæ

Og svo er Ljenzherrann varla búinn að klára æið í bæinu sínu fyrr en hann heyrir að Benni Laxdal er búinn að skella á, enda liggur honum mikið á að endurnýja sem flest gömul kynni fyrir kosningarnar í næstu viku.

Engin ummæli: