mánudagur, 10. janúar 2005

Ljenzherranum af kaffisterkt er hugmyndin um himnaríki ákaflega hugfólgin og getur hann eytt heilu dægrunum í að velta fyrir sjer aðstæðum og fyrirkomulagi á þessum stað.

Við komuna til himnaríkis er hverjum og einum úthlutað slopp og honum tilkynnt að það sje á hans eigin ábyrgð að halda honum skínandi hvítum. Ásamt sloppnum er afhent dagskrá yfir fyrstu dagana og er hún þjettskipuð. Byrjendatímar í hörpuleik, viðhorfskönnun um jarðvistina, endurfundir við látna ættingja, starfsviðtöl og svo framvegis.

Viðhorfskönnunin er ef til vill erfiðasti hlutinn þessu öllu, en hún er full af spurningum eins og Fannst þjer erfiðleikar styrkja þig? Er of kalt á Íslandi í júlí? Ef já, hversu mikið, allt of kalt meðal kalt eða lítið kalt. Fannst þjer þú hafa fullt vald yfir lífi þínu? Ef þjer stæði til boða að endurfæðast myndirðu vilja fæðast örvhendur?

Í ljós hefur komið að allt að því 38% aðspurðra þykir of kalt á íslandi í júlí og 5% prósent kjósa að endurfæðast örvhendir.

Ljenzherrann er einnig búinn að gera sjer hugmyndir um það að á himnum sje að finna stórkostlegasta gagnagrunn fyrr og síðar. Í gagnagrunn þennan eru skráð jafnvel hinar minnstu athafnir okkar mannanna og í lok jarðvistar er svo hægt að fara yfir bókhaldið og athuga hvort að viðkomandi einstaklingur sleppur inn í Himnaríki.

Nei Jón, þú sagðir Andskotinn 12.876 sinnum, Fjandinn 8.912 sinnum og þar að auki öskraðirðu "Fjandans andskoti" 40 sinnum á gamlar konur. Ég veit ekki um þig Jón, en okkur finnst það ekki fallegt. Næsti!!!!

Gústaf segirðu... já hjerna ertu.. hahahaha... (glott) já já, þú fórst áttatíu og fjórum sinnum í nærbuxurnar hennar konunnar þinnar og áttir þar að auki draumóra um það að nágranninn þinn, hann Skeggjaði-Páll, flengdi þig með pönnukökuspaðanum hennar Dóru móðursystur þinnar. Svoleiðis öfuguggahátt líðum við ekki!!! Okkur finnast pönnukökur góðar!!! Næsti!!!

Ahh... Waldorf... eins og salatið... já, hjerna stendur að frá þrettán ára aldri hafirðu alltaf þurft að kaupa tvö pör af skóm því hægri fóturinn hafi verið tveimur númerum stærri en hinn. Það er asnalegt, má ég nokkuð sjá? Ágætt, Þú blótaðir frekar lítið, drýgðir aldrei hór, þú slefaðir yfir húsinu hans Bergþórs Pálsonar þegar það kom í innlit útlit, en hjerna stendur reyndar að hann sje ekki náungi þinn, þarna slappstu fyrir horn. Þó svo þú hafir alltaf borgað í stöðumæla mættirðu sjaldan í messu. Því miður ertu að reyna að komast inn í himnaríki en ekki sækja um starf hjá bílastæðasjóði. Snautaðu niður væni. Næsti!!!

Kristján. Þá sjaldan sem þú mættir í messu varstu yfirleitt sofnaður og farinn að hrjóta eins og rostungur áður en lofgjörðin var svo mikið sem hálfnuð. Hefurðu sjeð rostung? Hefurðu heyrt þá hrjóta? Nei það hefurðu ekki!!! Þú fórst hinsvegar með faðirvorið samviskusamlega á hverju kvöldi, ef undan er skilinn 28 október 1979 en þá varstu hvort eð er svo rottufullur að þú fjellst í ómegin í baðkarinu heima hjá þjer þar sem þú hjelst því staðfastlega fram að þú hjetir Pjetur og værir fráskildur pútnabóndi úr Austur-Landeyjum. Það væri þokkalegt. Bænir eru góðar og svo bar gamli páfagaukurinn þinn þjer vel söguna. Þú sleppur í gegn, hjerna er sloppurinn þinn og bæklingurinn. Góða skemmtan.

Engin ummæli: