þriðjudagur, 18. janúar 2005

Ljenzherrann man alveg hvenær hann sá hana fyrst. Það var fyrir rúmum tveim árum í sal 1 í háskólabíói, þegar Ljenzherrann mætti í sinn fyrsta verkfræðitíma. Þetta var Stærðfræðigreining IB og Ljenzherrann settist aftast að heldrimannasið og fylgdist síðan með fólkinu tvístíga inn og skima eftir andlitum kunnuglegum. Tvístíga inn? Jú, flestir voru líkt og Ljenzherrann að taka sín fyrstu skref inn í nýjan hluta lífs síns, háskólaárin, og flestir virtust vera að velkjast í vafa um það hvort þeir ættu eitthvað erindi inn í þennan stóra bíósal að hlusta á raus um markgildi og deildanleg föll.

Ein stúlkan skar sig augljóslega úr fjöldanum og Þegar hún gekk inn fjekk hún óskipta athygli Ljenzherrans, sem fylgdist með henni úr launsátri sínu á aftasta bekk. Honum þótti hún undurfögur, hann fylgdist með henni allt frá því hún gekk inn og þar til hún settist. Reyndar fylgdist hann einnig svolítið með henni eftir að hún var sest, því í baráttunni um athygli Ljenzherrans hafði fögur stúlkan ótvíræðan sigur yfir stærðfræðirengluni sem stóð uppi á sviði og afgreiddi allt námsefni menntaskólans á klukkutíma og korteri.

Ef einhver spjátrungur hefði hvíslað því að Ljenzherranum að tveim árum seinna myndi þessi myndarlega stúlka bjóða Ljenzherranum í mat heim til sín, til að kynna hann fyrir foreldrum sínum, hefði Ljenzherrann gert hróp að honum og kallað hann fákjána.

En viti menn. Eitt fagurt kvöld í byrjun janúar var Ljenzherranum boðið í mat heim til þessarar gullfallegu stúlku og til stóð að frumsýna hann.

Ljenzherrann laugaði sig rækilega og bar á sig vellyktandi. Hann klæddi sig í nýpressaðar buxur og sína beztu skyrtu. Síðan brunaði hann af stað í stóra, ljóta, trukknum sínum, heldur kvíðinn. Eftir margar beygjur var hann kominn fyrir utan húsið þar sem hann hafði svo oft sótt og skilað stúlkunni sinni, en aldrei komið inn í. Ljenzherrann hafði nefnilega alið þær hugmyndir í brjósti sjer að foreldrum væri ekkert sjerlega hugað um strákpjakka sem eru að atast í dætrum þeirra, og þeir sem aka um á gömlum, ryðguðum pallbílum hljóti að vera litnir alveg sjerstöku hornauga.

Þegar á hólminn var komið reyndist ótti Ljenzherrans sem betur fer vera ástæðulaus og að hans mati fór málsverðurinn sjálfur stórslysalaust fram. Og varð hann hvorki sjer nje öðrum til stórlegrar skammar, að hann telur sjálfur. Maturinn var alveg fyrirmyndar þannig að Ljenzherrann þurfti ekki að pína hann ofan í sig í nafni kurteisinnar, heldur gat gat etið allt sem honum var rjett með góðri lyst. Gerði Ljenzherrann vel við sig í bæði í kartöflum og sósu og hámaði svínakóteletturnar í sig eins og óseðjandi hakkavjel. Þegar Ljenzherrann var búinn að sleikja sósuna af öllum diskum og naga bæði eigin bein og annarra brutust út samræður.

Að sjálfsögðu vildu foreldrarnir fá að vita hverra manna Ljenzherrann væri og varð hann við ósk þeirra með sjerstakri ánægju. Bað hann um að sjer yrði útveguð krít og tafla. Slíkt reyndist ekki tiltækt þannig að Ljenzherrann ákvað rita glósur og skýringarmyndir með hanastjelssósu (kokteilsósu) á skjannahvítan ískápinn. Sagan var sögð í rjettri tímaröð og hófst árið 874 með eltingaleik Ingólfs Arnarsonar við öndvegissúlur sínar. Þrem klukkutímum og fjölmörgum útúrdúrum síðar var Ljenzherrann ekki kominn lengra með ættartrjeð en svo að langalangalangaafi hans var að hósta úr sjer móðuharðindunum. Ljenzherrann gerði hjer örstutt hlje á máli sínu til að ræskja sig og væta kverkarnar og í kjölfarið þurftu flestir matargestir skyndilega að reka erindi í aðra bæjarhluta og kvöddu.
Meira seinna, nóttin er ung.

Engin ummæli: