fimmtudagur, 27. janúar 2005

Úfurinn nefnist dinglumdanglið sem lafir kokinu á þjer og þykir ómissandi myndefni í öllum teiknimyndasögum þar sem opnaður er munnur. Þegar Ljenzherrann var drengur ungur pældi hann mikið í því hvaða gagn líkaminn gæti haft að þessu fyrirbæri. Við vangaveltur þessar stillti hann sjer upp fyrir framan spegil, galopnaði á sjer gapaldið og skók sig svo rækilega til og frá þannig að úfurinn hristist og sveiflaðist þannig að hann minnti helst á á ánamaðk sem nýbúið er að þræða upp á öngul. Ekki fjekk hann botn í málið við það.

Það var síðan eitt janúarkvöldið að verið var að pína ofan í Ljenzherrann þjóðlegan mat, hrogn og lifur að ljósið rann upp fyrir honum. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann þó vit á því að telja þetta óæti og viðhafði eins frækilega baráttu og nokkru barni er auðið til að komast hjá því að eta þennan óþverra. Eftir mikinn eltingaleik tókst loks að hafa hendur í hári stráksa og þegar búið var að kefla hann niður fóru foreldarnir að ota að honum sneisafullum göflum af ógeðinu. "Bara einn bita" sagði pabbi og Ljenzherrann fylltist viðbjóði, hann sá hrognin og lifrina fyrir sjer uppi í munninum, sá þetta velkjast á milli tannanna þar til hægt væri að láta þetta renna niður kokið og strjúkast við úfinn. Já!!!!! öskraði Ljenzherrann. Hann hafði gert uppgötvun. Pabbinn tók þessu hinsvegar sem merki um aukinn áhuga barnsins á þjóðlegum mat og sætti lagi meðan Ljenzherrann öskraði jáið sitt og laumaði upp í hann dágóðum slatta af hrognum og lifur.

Af barnslegu innsæi hafði Ljenzherrann ályktað að að úfurinn væri teljari sem teldi bitana sem færu ofan í maga og þegar hann væri kominn upp í ákveðna tölu væri maður saddur. Þess má til gamans geta að þó svo þessi gaffall með hrognum og lifur hafi ratað upp í Ljenzherrann, þá hækkaði "bitateljarinn" ekki baun og í hlut pabbans komu talsverð þrif.

Engin ummæli: