föstudagur, 3. desember 2004

Subway, sautjánmilljónirfimmhundruðfjörtíuogáttaþúsundþrjúhundruðfimmtíuogtveir mismunandi bátar í boði
Skorað hefir verið á Ljenzherrann að klára sósuútreikningana og reikna út hve marga mismunandi báta er hægt að panta á Subway. Slíkt getur varla talist skemmtiefni, en hvað um það.

Áður var komið fram að hægt væri að velja sjer brauð og bát á 68 mismunandi vegu.

Hverjum þessara 68 báta má breyta með því að bæta á hann sósu.

Í boði eru fjórar tegundir af sósu, möguleikarnir í þeim efnum eru:
engin sósa, ein sósa, tvær sósa, þrjár sósur og allar sósurnar.
Hægt er að velja enga sósu á einn vegu, eina sósu á ferna vegu, tvær sósur á sex vegu, þrjár sósur á ferna vegu og allar sósurnar á einn vegu. Alls eru þetta því 16 möguleikar og hafa ber í huga að ekki er tekið tillit til þess í hvaða röð sósurnar eru settar á bátinn, sjervitrir einstaklingar eru beðnir afsökunar.

Fjöldi mismunandi báta er þá orðinn 68*16 eða 1088.

En nú vandast málið, það er einnig til grænmeti. Kál, laukur, gúrkur, tómatar, ólífur, jalapenjo og gúrkur súrar, ef Ljenzherrann man rjett. Alls 7 tegundir.
Nú er aldeilis gaman að lifa því hægt er að velja, ekkert grænmeti, eina grænmetistegund, tvær grænmetistegundir, .... , sjö grænmetistegundir.

Hægt er að velja eina grænmetistegund á 7 vegu, tvær á 21, þrjár á 35 vegu, fjórar á 35, fimm á 21, sex á 7, og allar á eina vegu. Alls eru því 127 möguleikar í boði varðandi grænmetið.

Fjöldi mismunandi báta er nú orðinn138.176.

En sagan er ekki úti enn, einnig er hægt að fá á bátana ost, olíu, edik, salt, pipar, majónes og ljett-majónes. Eða sjö tegundir, líkt og með grænmetið eru mögulegar samsetningar þessara hluta 127. Deila má þó um hvort að það sje raunhæfur valkostur að setja bæði ljett-majónes og venjulegt á sama bátinn, en hver er Ljenzherrann til að dæma um það?

Burtsjeð frá siðferðislegum vangaveltum um majónes er fjöldi mismunandi báta kominn upp í 17.548.352. Ljenzherrann telur það ekki seinna vænna fyrir Subway að koma af stað heljarinnar nafnasamkepni.

Langi yður til að smakka alla þessa báta, er um að gera að byrja sem fyrst því fáir þú þjer einn á dag tæki það þig 48.078 ár. Ef allir Íslendingar, skv tölum Hagstofunnar frá 1. des, myndu hjálpast að og allir sem einn fá sjer bát á dag, en enginn þann sama, myndi það taka íslensku þjóðina 60 daga að klára flóruna.

Væru allir þessir bátar pantaðir tólftommu langir og þeim raðað í einfalda röð yrði hún 5349 kílómetra löng, en það dugar rúmlega 7 sinnum í kringum Ísland.

En hvernig í ósköpunum nennti Ljenzherrann þessu, jú hann ætti að vera að lesa fyrir próf. Þá gerir hann allt sem hann mögulega getur í stað þess að læra.

Engin ummæli: