sunnudagur, 5. desember 2004

Á mannlegu nótunum.
Ljenzherrann af Kaffisterkt er mikill áhugamaður um mannlegt eðli. Honum þykir til að mynda ákaflega gaman að stunda ,,atferlisrannsóknir". Ljenzherranum þykir það ákaflega fínt að kalla það ,,atferlisrannsóknir” þegar honum dettur eitthver vitleysa í hug sem hann hreytir framan í blásaklaust fólk til að sjá hversu reitt og pirrað það verður.

Eftir því sem að árin færðust yfir Ljenzherrann fór hann reyndar að gæta meira hófs í þessum efnum þar sem að þessar ,,atferlisrannsóknir” kostuðu hann jafnan álitshnekki og oftar en ekki hótanir um barsmíðar. Hingað til hefir Ljenzherrann sloppið alveg við að vera beittur ofbeldi af þessum sökum. Sjö, níu, þrettán.

Blómatími þessara rannsókna var þegar Ljenzherrann starfaði sem þjónn á fínu veitingahúsi. Þar lærðist honum ýmislegt. Hann ræktaði með sjer hæfileikann til að eiga innihaldslaus samtöl við ókunnuga. Fullkomnaði þá list að skapa vandræðalegar þagnir með óviðeigandi athugasemdum og komst einnig að því að hægt er að vekja lukku með að segja nánast hvað sem er, ef maður hlær bara sjálfur nógu duglega á eftir.

Má ekki bjóða ykkur að sjá vínlistann okkar, hann er langur, en samt ekki jafn langur og gólflistinn!!!!! HAHAHAHAHAHAHAHAHAAHHAAA HAAHHAHAHAAHHHAHHAAHHAHAhAHAHAHAHAHHHAAAHA!!!!!

Gestir:
HAHAHAHAHAHHAHAHAHHAAHAA, þjónn, þú ert alveg milljón!

Bílastæðasjóður!!! Gamall og rjóður!!!! HAHAHAHHAHAHAHAHAHAHAHAHAHA!!!

Gestir:
HAHAHHAHAHAHAHHAHAHAAHAHAHAHAHAHA hættu nú alveg.

Ljenzherrann stendur kyrr og brosir tryllingslega í dulitla stund.

Mikla skemmtan gat Ljenzherrann haft af því að þjóna fjölskyldufólki, sjerstaklega ef gjafvaxta unglingsstúlka var með í för. Í slíkum tilvikum lagði Ljenzherrann sig í líma við að senda stúlkunum daðursfull augnaráð svo lítið bæri á. Í hjegómleik sínum urðu þær undantekningarlaust himinlifandi yfir þessari óvæntu athygli sem þjónninn sýndi þeim og endurguldu augnarráðið tífallt til baka, feðrum sínum til lítillar ánægju.

Sjerstaklega gaman hafði Ljenzherrann þó af því að fylgjast með pörum sem sýnilega voru á sínu fyrsta stefnumóti. Hafði hann sjerstakt lag á því að ónáða á viðkvæmum augnarblikum, eins og þegar rauðvínið var búið að stappa nógu miklu stáli í turtildúfurnar til að þær þyrðu að strjúka hendur hvors annars í skjóli kertaljóssins. Á því augarbliki var Ljenzherrann jafnan mættur með könnu af ííííísköldu vatni, sem hann bauð parinu að bergja á. Hendurnar hurfu jafnan undir borðið eins og tvær feimnar eiturslöngur og Ljenzherrann átti í mestu vandræðum með hella vatninu ofan í glösin, því öll hans einbeiting fór í það að bæla niður í sjer kvikyndislegan hláturinn.

Ljenzherrann hefur meiri trú á örlögunum en svo að hann telji að einhverjir hafi farið á mis við lífsförunauta sína vegna þessa, en því er ekki að neita að mál sem þessi eru viðkvæm á frumstigum sínum.

Engin ummæli: