þriðjudagur, 14. desember 2004

Draumar
Eftir því sem líður á prófin verða draumfarir Ljenzherrans æ sýrðari. Í nótt þurfti Ljenzherrann til að mynda að kljást við kvikyndi nokkurt sem leit einna helst út fyrir að vera skilgetið afkvæmi sporðdreka og miðlungs þroskaðs banana. Einnig olli dónalegur, en litskrúðugur humar Ljenzherranum talsverðu hugarangri með óhefluðu orðfari sínu og andfjelagslegum viðhorfum í garð vináttu og kærleika.

Þegar Ljenzherrann var á sínum yngri árum keypti hann sjer stundum smáskífur með þeim lögum sem honum þóttu prýðileg. Þegar lagið var búið að spilast á disknum komu yfirleitt nokkur “remix”. Remix þessi voru yfirleitt ekkert annað en örlitlir bútar af laglínu prýðilega lagsins, sem dreift var í undarlegan hljóðhrærigraut í bland við drungalegan takt og búta úr viðlaginu.

Hið sama virðist einnig gilda um okkar daglega líf. Þegar raunveruleikinn er búinn kemur draumurinn, hin bjagaða útgáfa af frummyndinni. Ljenzherranum þykja draumar vera remixið af raunveruleikanum. Remix þessi eru gerð af einstaklega frjóum og hugmyndaríkum ,,djejoð” sem kærir sig kollóttan um hefðbundnar reglur og gildi.

Og varla er Ljenzherrann sofnaður fyrr en Djejoð-Draumur er mættur á svæðið og farinn að blanda hinum ýmsu remixum saman í undarlega en samhangandi heild, rjett eins og hann væri að þeyta skífum í yfirgefnu flugskýli fyrir her dansþyrstra e-pillusjúklinga.

Engin ummæli: