miðvikudagur, 1. desember 2004

Drauma og fyrirheitasósa
Í gær var Ljenzherrann af Kaffisterkt ásamt sinni stórglæsilegu stúlku á vappi í miðbænum. Gengu þau hönd í hönd eftir Austurstrætinu og virtu fyrir sjer mannlífið. Þau sáu tuskulega konu og órakaðan en prúðbúinn mann stíga út úr Ríkinu. Ekki höfðu þau skötuhjúin gert stórinnkaup, einungis eina dós af öli og voru þau vart komin yfir þröskuldinn fyrr þau voru farin að telja ofan í hvort annað sopana. Ljenzherrann setti upp vandræðalegt bros og tók örlítið þjettar í hönd stúlkunnar sinnar og herti á göngunni. Þau höfðu afráðið að snæða miðdegisverð á ,,Subway” og þegar þangað kom voru þau því fegnust að biðröðin virtist óvenjustutt miðað við þennan tíma dagsins.

Ljenzherrann tók sjer stöðu fyrir framan stórt og litríkt skiltið, og skemmti sjálfum sjer með að reikna í huganum hversu margar mismunandi samlokur mætti útbúa með þeim fjórum brauðtegundum og þeim seytján bátum sem stóðu til boða.

,, ah... sextíuogátta mismunandi bátar....svo eru líka til sósur...Southwest, Dijon Horseradish, Honey Mustard, og Sweet onion..... mmmmmm Dijon Horseradish, þvílíkt nafn!! það hlýtur að vera sósan sem draumar og fögur fyrirheit eru gerð úr

Hugsaði Ljenzherrann með sjer og hlakkaði mikið til að fara að reikna út hversu marga báta væri hægt að gera ef allar hugsanlegar samsetningar á sósu yrðu einnig teknar með í reikninginn.

“Það gæti verið ein sósa og það gæti verið engin sósa, það gætu verið...”

-,,Afsakið vinur"

Ljenzherrann hrökk upp úr hugarheimi sínum og snjeri sjer við.

,,Áttu nokkuð handa mjer tvöhundruð krónur vinur... fyrir mat?”

Sagði maðurinn og leit síðan örsnöggt á stúlku Ljenzherrans, eins og til að biðjast afsökunar á ónæðinu og þessum skítugu lörfum sem hann var í.

Ljenzherrann, sem stóð í biðröðinni á rándýrri amerískri skyndibitakeðju, gat ekki fengið af sjer að neita manninum og kafaði í vasa sína í leit að klinki. Ógæfumaðurinn kreisti fram bros á aldrað og tekið andlitið og daufur glampinn í augum hans gaf Ljenzherranum til kynna að hann væri að horfa í augu sem sjeð höfðu ýmislegt sem Ljenzherrann vonar að hann þurfi aldrei að sjá með sínum eigin.

Ljenzherrann rjetti ógæfumanninum alla skiptimyntina sína og reyndi eftir fremsta megni að komast hjá því að snerta hrjúfar og skítugar hendurnar, LJenzherrann vildi að þetta tæki sem fljótast af, honum fannst þetta óþægilegt. Maðurinn þakkaði síðan auðmjúklega fyrir sig og átti sýnilega erfitt meða að að stilla sig um að hlaupa á leið sinni yfir götuna. Þar beið fjelagi hans með rauðan dregil og fagnaði vini sínum með lúðraþyt og opnaði fyrir hann hurðina á ,,Kaffi Austurstræti", en knæpan sú er endurhæfingarstöð þeirra sem hrasað hafa í metorðastiganum eða snúið sig í lífsgæðakapphlaupinu.

Ljenzherrann sendi stúlkunni sinni vandræðalegt augaráð og snjeri sjer aftur við. Einhvernveginn hafði hann þó ekki geð í sjer til að hefjast aftur handa við sósuútreikningana. Ljenherrann var satt að segja svolítið eftir sig eftir þessa innrás úr ókunnum heimi, sem hvorki hann nje aðrir kæra sig um að vita af.

Nokkrum mínútum síðar kom ógæfumaðurinn aftur út af ,,kaffi Austurstræti" og stikaði keikur niður strætið, eins og þræll sem fengið hefir frelsi. Hann staldraði þó endrum og eins til að dreypa á sinni eigin drauma og fyrirheitasósu, einum pela af vodka í boði Ljenzherrans.

Engin ummæli: