föstudagur, 19. nóvember 2004Í öllu fannferginu og fimbulkuldanum sem ríkt hefir undanfarna daga hafa ófáar kuldaskræfurnar þurft á áfallahjálp að halda. Ljenzherrann telur þó að samviskusamir fjölskyldufeður hafi orðið verr úti, en algengt er að þeir frjósi fastir við VolvoStation-bílana sína á meðan þeir eru að skafa af þeim.

Viðbrögð manna við kuldanum eru misjöfn. Sumir taka honum fagnandi, líta á hann sem tækifæri til að brúka fínu úlpurnar sínar, eða önnur vosklæði, á meðan aðrir blóta sköpunarverkinu í sand og ösku, ef til vill í þeirri von að þeir endi á hlýjum stað að jarðvist þessari lokinni. Ljenzherrann lætur ósagt hvorn hópinn hann fyllir.

Þegar göturnar fyllast af snjó breytast jeppaeigendur í riddara sem frelsa almúgann undan kúgum og áþján frosins vatns. Ljenzherrann á tröllvaxinn jeppa á risastórum dekkjum og því sjálfskipaður bjargvættur pikkfastra smábíla og klaufskra eigenda þeirra. Margur klaufinn hefir horft vongóðum augum á Ljenzherrann nálgast á trukki sínum og borið þá von í brjósti að loksins verði bíldollan dregin úr skaflinum. Það fyndna er að Ljenzherrans trukkur er sannkölluð belja á svelli og engan veginn aflögufær um núningskraft. Með sitt brotna framdrif er trukkurinn ,,sauður í úlfsfeldi" og flýtur um strætin á hyggjuviti Ljenzherrans einu saman og þeirri hugsjón bílstjórans að sigla fleyi sínu eigi í strand. Aukinheldur ruggar Ljenzherrann sjer í sætinu á erfiðum tímum og hvetur bílinn til dáða með ýmsum öskrum og búkhljóðum.

Ljenzherrann brunar því framhjá öllum föstum bílum, og til að hafa örlítið gaman af þessu setur hann upp ógeðslegt glott. Sagt er að það megi þekkja hvali í sundur af mynstrinu á sporðum þeirra. Ljenzehrrann er sannfærður um að slikt gildi einnig um löngutangir smábílaeigenda.

Engin ummæli: