miðvikudagur, 3. nóvember 2004

Ljenzherrans líffræðiverkefni
Ljenzherrann man sem það hafi gerst í gær einn grámyglulegan þriðjudaginn þegar hann var á öðru ári í menntaskóla. Sólin skein inn um gluggann og lýsti upp rykkornin sem svifu í loftinu með unaðslega tilviljanakenndum hætti. Það var líkt og þau gætu ómögulega gert upp við sig hvort að þau ættu að svífa örlítið lengur eða setjast á sjónvarpsskjáinn og ganga í bræðralag með sólinni um það að varna Ljenzherranum þess að fylgjast með endursýningum á Nágrönnum og vonum glæstum

Ljenzherrann var þá þegar búinn að sýkjast af sínum þráfellda námsleiða sem hann hefur háð hatramma baráttu við alla tíð síðan. Hann lá á hliðinni og vorkenndi sjer, hann gat engan veginn fengið sig til að byrja á enn einu hundleiðinlegu líffræðiverkefninu. Lífsferill mýflugu, ojbarasta, sveiattan, gat það orðið minna spennandi.

Ljenzherrann vissi að hann gæti ekki skorast undan þessu og ákvað að setja sjer markmið. Fyrst opnaði hann á sjer munninn og hætti að kyngja, hann ætlaði að byrja á verkefninu þegar hann væri farinn að slefa. Það virkaði ekki þannig að hann ákvað hann myndi pottþjett byrja næst þegar síminn hringdi (þetta var fyrir daga GSM símanna). Svo hringdi síminn en Ljenzherrann nennti ekki að svara og lá áfram eins og hann væri lamaður fyrir neðan hársvörð. Síðasta loforðið sem hann gaf sjálfum sjer var að fylgjast með sekúnduvísinum alveg þangað til klukkan yrði fjögur. Hann taldi að á þessum rúma hálftíma hlyti hann að vera búinn að fá nóg af aðgerðaleysinu, en það reyndist borin von.

Þessi örfáu orð sem að Ljenzherrann átti að rita um lífsferil mýflugu voru í huga hans orðin að ókljúfanlegu fjalli. Það var ekki fyrr en að Ljenzherranum datt í hug að breyta þessari þurru lífsferillýsingu yfir í ævisögu með öllu tilheyrandi. Þá loksins þurrkaði Ljenzherrann framan úr sjer slefið, drattaðist fram úr og settist við skriftir.

Hann settist við gamla eldhúsborðið, sem var kringlótt (af hverju heitir þetta ekki hringlótt ef þetta er eins og hringur í laginu) og hafði á langri ævi sinni þróað með sjer slitgigt í undirstöðurnar og orðið mjög svagt. Eftir því sem að Ljenzherrann komst lengra í þessari frásögn sinni komst hann á meira flug og eftir því sem að hann komst á meira flug brakaði meira og brast í aumingjans borðinu. Loks var Ljenzherrann orðinn svo æstur að hann gat ómögulega setið kyrr og gekk um gólf á meðan hann velti fyrir sjer hvaða hörmungar ættu að dynja næst yfir Magnúsi greyinu mýflugu og hvernig hann ætti að deyja.

Á svarblaðinu hafði kennarinn gert ráð fyrir sjö línum fyrir þetta svar. Ljenzherrann notaði þær allar, og bakhliðina líka. Verkefnið fór örlítið úr böndunum hvað lengd varðaði. Þetta útkrotaða blað skar sig eilítið úr snyrtilegum úrlausnum annarra nemenda, þannig að forvitin stúlka hrifsaði það af Ljenzherranum og tók að lesa það. Stúlkan sem var í ritstjórn Skinfaxa, sem er blað sem gefið er út í Menntaskólanum í Reykjavík, linnti ekki látum fyrr en hún hafði fengið leyfi fyrir því að birta Ljenzherrans líffræðiverkefni á síðum blaðsins.

Stúlkunnar beið það vandasama verkefni, sem áður hafði einungis hvílt á herðum þrautþjálfaðra kennara, að afkóða Ljenzherrans hrafnaspark yfir í skiljanlegt lesmál. Að þessu loknu skilaði hún hrafnasparkinu til kennarans og hefir það ekki sjest síðan.

Þegar Ljenzherrann ritaði þessa sögu var hann sautján ára óharðnaður unglingspiltur og fáfróður um lífsins leyndardóma. Sagan ber þess eflaust merki, en verður þó birt hjer í fullri lengd á morgun.

Engin ummæli: