miðvikudagur, 27. október 2004

Tilveran er ekki eintómt appelsín-límónaði
Fyrir þá sem að vita ekki alveg hvernig þeir eiga að taka því sem að hjerna á Kaffisterkt birtist mælir Ljenzherrann með eftirfarandi: (hinir eru vinsamlegast beðnir um að lesa ekki lengra)

(Mælt er til lesandans sem slíks í karlkyni)
Reyndu að sjá fyrir þjer kyrrlátt lítið rjóður með gróskulegum trjám og litlum hjalandi læk. Þú finnur hvernig náttúrubarnið vaknar innra með þjer og óstjórnleg þörf fyrir að svipta þig klæðum gerir vart við sig. Þú lætur það eftir þjer og ferð að valhoppa um rjóðrið og í hvert skipti sem að fæturnir snerta mjúkt grasið finnurðu hvernig áhyggjur og hin daglega angist minnka.

Allar áhyggjur eru horfnar og þjer hefir aldrei liðið jafn vel. Í fjarska sjerðu hvítklæddan mann birtast. Það stafar af honum vizku, ljósi og stóískri ró. Þessi maður ber af sjer góðan þokka og gríðarsterk nærvera hans vekur hjá þjer minnimáttarkennd. Þjer finnst þú lítill og ferð að skammast þín fyrir nekt þína. Þú lítur í kringum þig í örvæntingarfullri leit að fötunum þínum, en þau eru horfin. Þegar betur er að gáð heldur hvítklæddi maðurinn á þeim og glottir. Maðurinn kynnir sig, segist vera Ljenzherrann af Kaffisterkt, bendir síðan á nakinn líkama þinn og hlær.

“Svo að þú veist ekki alveg hvernig þú átt að taka færslunum mínum” spyr Ljenzherrann. “Vei þjer fávísi sauður!!! Þú vilt sennilega ekkert lesa nema “essemmessskilaboð” eða íslenzkan texta á mauksoðnu ammrísku sjónvarpsefni!!!!! Er það nokkuð???? Veistu hvar kokhlustin er???? Viltu fötin þín??? Viltu hylja nekt þína???” öskrar Ljenzherrann, og dregur fartölvu upp úr pússi sínum.

“Allt þráðlaust!!!!” tuldrar hann og eftir því sem að Ljenzherrann pikkar meira á tölvuna finnurðu hvernig völd þín yfir sjálfum þjer fara minnkandi. Kyrrlátt rjóðrið er horfið í svarta þoku. Þjer líður eins og þú sjert fastur í hyldýpisgjánni á milli svefns og vöku, þú skynjar umhverfi þitt en getur hvorki hreyft þig nje vaknað. Þjer er um og ó og hefur áhyggjur af þessu öllu saman.

Ljenzherrann heldur áfram að pikka og líkami þinn tekur breytingum og fyrr en varði hefirðu breyst í hund. Þú þarft ekki föt núna er það!!!! MUHUHA HAHAHAHA!!!” Ljenzherrann tekur að hreyfa sig ákaflega hratt og iðka ýmsar kúnstir sem að brjóta í bága við reglur efnisheimsins. Að lokum uppgötvarðu að þú ert fastur inni í færslu Ljenzherrans, staddur í heimi þar sem að Ljenzherrann ræður lögum og lofum. Ljenzherrann er galdrakall og sprotinn hans er lítil grá fartölva, þú ert ofurseldur valdi hans og undir dyntum hans og sjervizku kominn. Það er ekki gott hlutskipti.

Ljenzherrann skýst aftur fyrir þig og þegar þú snýrð höfðinu til að fylgja honum eftir sjerðu skottið á þjer í fyrsta sinn. Það virðist spennandi. Þú ferð að elta það. Þú hleypur í hringi uns þú ert orðin svo ringlaður að þú fellur til jarðar. Þú liggur og reynir að ná áttum, þú ert óðum að venjast þessum hundslíkama og uppgötvar að þú getur sennilegast sleikt á þjer kynfærin, þú freistast til að reyna. Þú sleikir af áfergju þar til að hlátur Ljenzherrans glymur í eyrum þínum. Þú lítur upp og sjerð húsbónda þinn í allri sinni dýrð. Þjer finnst sem þitt eina markmið í lífinu sje að þóknast honum og hleypur til Ljenzherrans og ætlar að flaðra upp um hann.

En að hlaupa til Ljenzherrann reynist þjer jafnvel erfiðara en að hlaupa til regnboga. Ljenzherrann tekur nefnilega tvö skref fyrir hvert það sem að þú tekur á meðan að regnbogar láta sjer yfirleitt nægja að taka eitt. Að lokum er Ljenzherrann horfinn. Örvænting fyllir þitt litla hundshjarta og þú þráir ekkert heitar en örlítið klapp á kollinn frá húsbónda þínum. Þú ert einn og yfirgefinn hundur í svartri eyðimörk.

Þú hleypur og hleypur, hleypur uns þig þrýtur þol og orku. Í fjarska sjerðu ljós. Þú hleypur aftur af stað og brátt sjerðu að ljósið í fjarska er orðið að tölvuskjá. Þú rýnir á skjáinn og sjerð að á honum eru ljósir stafir á svörtum grunni.

Til hamingju, þú ert sloppinn aftur út í veruleikann.

Engin ummæli: