föstudagur, 8. október 2004

Inn skal´ann þótt við grátum bæði
“Ertu að gramsa í ruslinu væni minn? veistu ekki að það er bannað?”
Sagði Lögreglumaðurinn og Ljenzherrann þagði vandræðalega. Lögreglumaðurinn lyfti upp sólgleraugunum og virti þennan mann fyrir sjer með fyrirlitningu, manninn sem að hálfri mínútu áður hafði verið á bólakafi í ruslagám og dregið skógarm, eins og hvern annan fjársjóð með sjer út. Hann rennir augnum yfir Ljenzherrans trukk og segir með yfirvegaðri röddu: ,,Það sást til bíls á Gullinbrúnni áðan... ...sem..”, sagði lögreglumaðurinn. Síðasta orðið dó af vörum hans og hann hafði ekki augun af kolryðguðum jeppanum. Eftir að hafa virt trukkinn fyrir sjer örlitla stund með sama fyrirlitningarsvipnum á andlitinu bætir hann við staðfastlega: “þessa bíls!!” Lögreglumaðurinn gerði greinilega ekki ráð fyrir að fleiri kolryðgaðir og gulir Nissan Patrol pallbílar hefðu verið á ferli með fullan pall af rusli á Gullinbrúnni klukkan korter í níu þetta fagra ágústkveld.

Ljenzherrann hafði fyrr um kvöldið hjálpað móður sinni elskulegu við að taka til í geymslunni sinni og verið á leiðinni í Sorpu með fullan pall af drasli. Ljenzherrann taldi að Sorpa væri opin til níu og brunar af stað. Ljenzherrann kemur hinvegar að læstum hliðum í Sorpu við elliðavog og lítur forviða á klukkuna. Einhvern veginn fær hann það út að Sorpa í grafarvogi hljóti þá að vera opin til klukkan níu og brunar af stað. Hann hefir korter til stefnu.

Sakir mikillar tímaþröngar er Ljenzherrans fótur eilítið þyngri en á leiðinni í Elliðavoginn og bíllinn brunar með hraðasta hætti í gegnum iðnaðarhverfið á Höfðanum. Ruslið tollir á lyginni einni saman á kjaftfullum pallinum og Ljenzeherrann fylgist vel með í gegnum baksýnisspegilinn og býst við því að hvað úr hverju fari allt af stað.

Gullinbrúin er beinn og breiður vegur og þar nær Ljenzherrann áður óþekktri siglingu bæði fyrir tilstilli hagstæðra vindátta og landhalla. Fljótlega tekur hann þó eftir því að draslið er farið að fjúka af pallinum. “Það var auðvitað.... Jæja...minna fyrir mig að bera á eftir” hugsar hann með sjer og heldur áfram ótrauður. Aðrir vegfarendur eru greinilega ekki alveg eins ánægðir með stöðu mála og Ljenzherrann, því að hver og einn einasti bíll fer að láta öllum illum látum. Ljenzherrann er á hægri akreininni og á þeirri vinstri brunar fram úr honum hver bíllinn á fætur öðrum, flautandi og bendandi. Ljenzherrann þykist hvorki sjá þetta nje heyra heldur eykur ferðina með tilheyrandi aukningu á fjúkandi drasli.

Einum bílstjóranum er sýnilega heitast í hamsi og Ljenzherrann gefur honum hornauga í gegnum hliðarspegilinn. Hann byrjar á því að hanga á flautunni, en þegar að hann sjer að það ber engan árangur gefst hann upp og á undraverðan hátt nær hann að aka bílnum og skrúfa niður rúðuna farþegamegin, sem var augljóslega ekki rafdrifin. Ljenzherranum þykir mikið til fimi mannsins koma því að bílarnir voru á yfir 70 kílómetra hraða. Ljenzherrann verður hinsvegar alveg gapandi hissa þegar hann sjer að hausinn á samviskusama bílstjóranum er kominn út um rúðuna, en restin af líkamanum virtist ennþá vera í bílstjórasætinu og hafði sennilega verið trúað fyrir þeim starfa að aka bílnum. Ljenzherrrann skrúfar rúðuna hjá sjer niður í kurteisskyni og lítur á manninn. Maðurinn byrjar að öskra:

SJERÐU EKKI AÐ ALLT DRASLIÐ ER AÐ FJÚKA AF PALLINUM HJÁ ÞJER!!!!!!!”

Ljenzherrann, sem hefir nú aldrei verið þekktur fyrir að geta setið á stráki sínum svarar:

“TIL ÞESS ER LEIKURINN GERÐUR!!!!”

Og skrúfar síðan upp rúðuna í mestu makindum. Hann heldur áfram að fylgjast með manninum og sjer að það fauk all svakalega í hann. Ljenzherrann heldur hinsvegar sínu striki en auðvitað er Sorpa í Grafarvogi jafn kyrfilega lokuð og læst og Sorpan við Elliðavoginn. Ljenzherrann lemur í stýrið í gremjuskyni en sjer til mikillar ánægju tekur hann eftir ruslagámi sem að stóð fyrir utan hliðið. Ljenzherrann hugsar sjer gott til glóðarinnar.

Auðvitað er bannsettur gámurinn fullur, en þar sem að Ljenzherrann er frekar þrjóskur ákveður hann að troða bara bölvuðu draslinu inn, með góðu eða illu. Ljenzherrann bakkar trukknum að þannig að hann geti staðið á pallinum við iðju sína og fer að troða inn drasli. Ljenzherrann fór að troða stórum kassa inn um litla rifuna og minntist orða gamals vinnufjelaga síns: “inn skal´ann þótt við grátum bæði.” En jafnvel þótt Ljenzherrann gráti næst af pirringi vildi bannsettur kassinn ekki inn og í gremju sinni tók Ljenzherrann að sparka í hann með “kungfúkarate-spörkum.” Loksins tók kassinn að bifast og Ljenzherrann fyllist eldimóð. Áður en hann veit af er kassinn kominn á bólakaf og Ljenzherrann fastur með aðra löppina á bólakafi inn í gámnum. Þá tekur hann tekur eftir því, sjer til mikillar skelfingar, að lögreglubíll rennir í hlaðið.

Ljenzherrann dregur fótinn úr gámnum, en því miður verður skórinn hans eftir. Þetta var nýtízku skór sem að hann hafði nýverið keypt dýrum dómum þannig að hann fórnar sjálfum sjer í björgunarleiðangur. Ljenzherrann dýfir sjer í gáminn með frampartinn á undan. Hann finnur skóinn og þegar hann er kominn allur út úr illa lyktandi gáminum er löggan kominn alveg að bílnum hans.

Eftirleikinn þekkja allir. Auðvitað hafði einhver siðapostulinn sigaði Löggunni á Ljenzherrann og úr varð að hann eyddi restinni af kveldinu í það að týna gömul púsluspil og annað dót úr æsku sinni af Gullinbrúnni.

Engin ummæli: