þriðjudagur, 14. september 2004

Ljenzherrans trukkur á fögrum morgni.
Undanfarnir morgnar hafa verið kalsasamir, alltjent hefir Ljenzherrann þurft að skafa rúðurnar á trukki sínum. Reyndar var Ljenzherrans trukkur eini bíllinn á bílastæðinu með rúður hjelaðar, kanski að hann sje bara svo hár að hann sje kominn yfir snjólínu og á pallinum myndist brátt myndarlegur jökull? En hvað um það. Ljenzherrann var að verða of seinn í skólann þannig að hann vandaði sig ekkert sjerstaklega vel við það af skafa. Hann trekkti trukkinn, sem var heldur morgunfúll í gang. Trukkurinn refsaði Ljenzherranum fyrir það að angra sig svo snemma að morgni með því að senda heljarinnar reykmökk út um púströrið. Ljenzherrann horfði upp á restina af bílastæðinu hverfa í gráa þoku og skammaðist sín örlítið, en hjelt síðan af stað. Ljenzherrann hefði nú betur mátt vanda sig meira við að skafa rúðurnar því að hann hafði ekki fyrr beygt inn á miðja umferðargötu en sólin blindaði hann. Sólargeislarnir brotnuðu með margvíslegu mynstri í framrúðunni og á þetta hefði Ljenzherranum þótt gaman að horfa á, ef ekki hefði verið talsverð umferð á móti.

Ljenzherrann opnaði því hliðarrúðuna og stakk trýninu út að hætti Ace Ventura. Þeir sem sáu ungan herramann bruna framhjá JL-húsinu klukkan átta að mánudagsmorgni, með hausinn út um gluggann á gulum og ryðguðum pallbíl með strauborð á pallinum hafa því nú fengið nokkra skýringu á því sem að fram fór.

Í morgun hafði háfjallasólin hinsvegar náð að verma framrúðuna þannig að frostrósirnar fögru láku niður rúðuna eins og tær fjallalækur. Ljenzherrann gat því sett trukkinn samstundis í gang og undraðist mikið reykjarleysið. Þá tók hann eftir því að púströrið var á bólakafi í runna nágrannans. Ljenzherrann fylgist með þessu alveg gáttaður og undrast mikið yfir því hve svona lítill runni geti tekið við miklum reyk. Loks taka laufin að fölna og falla til jarðar og Ljenzherrann ákveður að stíga trukkinn í botn og bruna í burtu frá öllu saman. Eftir stóð runninn og fór að minna meira og meira á sóðalegan verksmiðjustromp eftir því sem að reykjarskýið stækkaði sem smaug út á milli greinanna.

Jafnvel þó svo að trukkurinn megi teljast gamall þvertekur Ljenzherrann fyrir að sagan sem sögð er í Mósebók fyrstu af Móse og brennandi runnanum hafi orðið til með sama hætti.

Engin ummæli: