þriðjudagur, 21. september 2004

Bremsuför
Jafnvel þó svo að Ljenzherrann sje farinn að kaupa bæði ryksugupoka og handsápur af eigin frumkvæði og í eigin reikning er hann ef til vill ekki eins þroskaður og hann lætur í veðri vaka. Gott dæmi um þetta gerðist í síðustu viku, í tíma í “samgöngutækni” svokallaðri, sem er þriðjaárskúrs í umhverfis og byggingarverkfræði. Kennarinn var að tala um stöðvunarvegalengd og viðnám á vegum og eins og Ljenzherrans er von og vísa hjelt hann varla meðvitund og dró ýsur öðru hverju með tilheyrandi hávaða og látum. Það var ekki fyrr en að kennarinn fór að tala um bremsuför sem að Ljenzherrann glaðvaknaði og í hvert skipti sem að háttvirtur prófessorinn ljet þetta orð út úr sjer átti Ljenzherrann ákaflega erfitt með sjálfan sig.

Ljenzherrann snjeri sjer nokkra hringi kankvís í sæti sínu í leit að einhverjum sem gæti gefið honum augnkontakt sem segði:

“já, ég trúi ekki heldur mínum eigin eyrum!! karlinn er að tala um bremsuför!! þetta er magnað!!!”

en gat ekki sjeð að svona óheflað orðbragð vekti svipuð viðbrögð hjá samnemendum sínum. Allir grúfðu þeir sig ofan í stóru stóru stílabækurnar sínar og hjeldu uppteknum hætti við að éta hvert orð upp eftir prófessornum og skrá niður með rauðum, bláum, svörtum eða grænum lit eftir því sem henta þótti. Það var ekki fyrr en Ljenzherranum var litið til pena litla pennastráksins að hann fann vin í eyðimörkinni. Peni litli pennastrákurinn átti sýnilega í mikilli innri baráttu við að hemja hláturkirtilinn og Ljenzherranum ljetti talsvert við þá sýn. Það er mikil huggun fólgin í því að þeir eigi hvorn annan að.

Að tímanum loknum sýndi Peni litli pennastrákurinn Ljenzherranum samanvöðlaðan brjefsnepil með útreikningum. Þegar betur var að gáð var Peni litli pennastrákurinn að reikna hemlunarvegalengd fyrir fimmhundruð gramma sívalingslaga hlut sem hafði fallið niður um fjörtíusentimetra og lent á skáplani með postulínsyfirborði sem hallaði um 70° miðað við lárjett og hafði hreyfinúningsstuðul 0,7. “Heldurðu að hann drífi niður í vatnið???” spurði pennastrákurinn síðan, púkalegur og spenntur.

Engin ummæli: