þriðjudagur, 24. ágúst 2004

Vestfjarðakjálkinn RE
Orrustan er liðin hjá. Ljenzherrann stendur eftir á vígvellinum þess fullviss að hann hafi fyllt andstæðing sinn af blýi, reyndar er hann ekki alveg eins viss um hvort að blýið myndi rjett mynstur á andstæðingnum, prófinu, en það er önnur saga.

Síðastliðið laugardagskveld var víst haldin menningarnótt í Reykjavík. Í stað þess að vafra blindfullur um miðborgina leitandi að menningu í hverju skúmaskoti bjó Ljenzherrann sig undir orrustuna miklu. Ljenzherrann gekk sperrtur í baki og tautaði fyrir munni sjer reiknireglur ýmsar milli þess sem hann iðkaði reiknikúnstir á pappír rúðustrikaðan. Það eina sem raskaði ró hans var ansvítans flugeldasýningin, en á hana horfði Ljenzherrann í gegnum gluggann á bókasafninu og bölvaði bruðlinu í sand og ösku Rjettara væri að nota þetta ágæta púður annarra og betri hluta. Setti Ljenzherrann saman eftirfarandi tilkynningu sem birt verður í öllum betri fjölmiðlum að ári.

Ljenzherrann af Kaffisterkt kunngjörir:
Fyrirhugaðri flugeldasýningu á menningarnótt hefir verið rænt og mun púðrið verða brúkað til að framkvæma þá hugdettu Ljenzherrans af Kaffisterkt, þess ágæta og ærumprýdda einstaklings, að sprengja Vestfjarðarkjálkann lausan frá landinu og gera hann út sem skemmtiferðaskip með stórbrotnu landslagi. Sprengt verður frá Gilsfirði í vestri til Bitrufjarðar í austri, myndu núverandi Vestfirðingar ekki verða rukkaðir fyrir fyrstu heimsreisurnar. Ljenzherrann auglýsir einnig eftir vönum spunakellingum og hvalatamningarmönnum. Hvalatamningarmennirnir munu koma til með að temja þrjú dúsín af dráttarhvölum sem festir yrðu við Vestfjarðakjálkann RE með sjerspunnum dráttartaugum úr köngulóarvef.


Stórbrotnir tímar krefjast mikilhæfra manna, Ljenzherrann af Kaffisterkt lengi lifi!! húrra! húrra! húrra!

Engin ummæli: