þriðjudagur, 17. ágúst 2004

Læst hliðarlega
Þegar Ljenzherrann var í grunnskóla var honum gert að læra skyndihjálp. Eitt af því sem hann átti að læra þar var læst hliðarlega og eftir að hafa heyrt kennarann segja þennan merkilega hlut, "læsta hliðarlegu" hugsaði Ljenzherrann sjer gott til glóðarinnar enda hljómaði þetta sem hið svæsnasta bellibragð. Ljenzherrann hætti síðan að fylgjast með kennaranum og fór þess í stað að láta hugann reika og endaði eins og vanalega í hetjudagdraumum um sjálfan sig.

“Vopnað bankarán var framið í Útvegsbankanum á þriðja tímanum í dag. Allt tiltækt lið lögreglu var kallað út enda var mikill gorgeir í ræningjunum sem voru vopnaðir bareflum og eggvopnum. Þegar lögregla kom á staðinn hafði ungur en myndarlegur drengur yfirbugað ræningjana sjö og lágu þeir í læstri hliðarlegu og gátu sig hvergi hreyft”

Að sjálfsögðu reyndist læst hliðarlega álika gagnleg í baráttunni gegn bankaræningjum og öðru illþýði og tveir bananar sem haldið væri í sitt hvorri hendi og brúkaðir í stað byssu. Eina gagnið sem að Ljenzherrann gæti haft af þessari læstu hliðarlegu væri það ef að einhver ræningjanna myndi hníga í ómegin af dularfullum ástæðum og Ljenzherrann langaði leggja hann þannig til að hann myndi ekki gleypa í sjer tunguna.

Engin ummæli: