fimmtudagur, 5. ágúst 2004

Hvað gerði Ljenzherrann um verslunarmannahelgina?
Síðastliðinn föstudag, á meðan biðraðirnar hlykkjuðust um söngolíusölustaðina (Majestens brennivíns- og rjólsforlag), stóð Ljenzherrann í stappi í ónafngreindri málningarverslun í Reykjavík og heimtaði hvítustu málninguna í búðinni. ,,Hvað ertu að fela þarna undir borði ódámurinn þinn, stattu upp!!!"

Á endanum stóð búðarlokan upp með grátstafinn í kverkunum og út gekk Ljenzherrann af Kaffisterkt með gullslegna dós sem geyma átti fyrir sjerstök tilefni.

Ljenzherrann fór í sjerstök föt og raðaði upp penslunum í þeirri röð sem hann hugðist nota þá og setti að því loknu upp ánægjublandinni tilhlökkunarsvip. Svo náði hann í skrúfjárn og svipti lokinu af dósinni. Viti menn, málningin var svo hvít að það lá við að það stafaði af henni ljósi. Það kurraði í Ljenzherranum, hann gat ekki stillt sig og þegar þefurinn af akrýlmálningunni lagði í nasir hans gat hann ekki lengur hamið sig. Ljenzherrann greip fyrsta pensilinn, ætlaðan fyrir horn og kverkar, og dýfði honum á kaf. Ljenzherrann hristist allur og skalf, eins og hann hefði drukkið þrjá lítra af extra sterku expresso, svo rjeðst hann til atlögu með hreyfingum sem gáfu fullt tilefni til að ætla að Ljenzherrann væri spasstískur.

“Það má ekki mála útfyrir” tautaði Ljenzherrann fyrir munni sjer og færðist allur í aukanna þegar hann náði í næsta pensilinn. Ljenzherrann fann skyndilega til mikils hita og tók að svipta sig klæðum. ,,mikið er hún hvít.... ....mikið þekur hún vel..” tuldraði hann og áður en varði var hann orðinn nakinn og hamaðist eins og vitstola maður við að klína málningunni á veggina, og nánasta umhverfi þeirra.

Það væri ofsögum sagt að Ljenzherrann hafi verið vandvirkur við þessa iðju og að nýtnin á málningunni hafi verið góð. Rúmlega helmingurinn fór á hann sjálfan og þegar Ljenzherrann hafði gripið síðasta pensilinn, sjálfa rúlluna, var hann allur orðinn hvítur sem skjanni og stæði hann við nýmálaðan vegginn sást ekkert nema dökkgrænu og skilningsríku augun hans.

Þegar málningin var búin sefaðist Ljenzherrann, gekk að speglinum og virti fyrir sjer hvítt hörundið. ,,Af hverju er ég svona hvítur?” spurði Ljenzherrann spegilmynd sína. ,, Af því að þú varst að mála kjáninn þinn” svaraði hann svo sjálfum sjer örlitlu seinna af hinu mesta æðruleysi.

Ljenzherrann horfði dreyminn á andlitið á sjer eilitla stund. Svo kom púkalegur svipur á Ljenzherrann, hann hafði fengið hugmynd.

Í Ljenzherrans húsi býr gömul kona, afskaplega gömul kona, svo gömul að ekki einu sinni fimm lítrar af Channel no 5 ná að fela nályktina sem leggur af henni. Kona þessi gerir allt hægt, hún talar hægt og sem betur fer hreyfir hún sig líka hægt, því að þá getur Ljenzherrann, í skjóli æsku sinnar og kattfimra limaburða, skotist ósjeður framhjá henni, eða alltjent það snögglega að hún nær ekki að snúa sjer nægjanlega mikið við til að hefja samskipti.

Til þessarar konu brunaði Ljenzherrann og það kraumaði í honum hláturinn, nú skildi hann gera henni grikk.

Hann lagði eyrað á hurðina og heyrði engan umgang, hann tók ljett í snerilinn og viti menn, hurðin opnaðist. Ljenzherrann læddist meðfram veggjunum og fikraði sig úr einu herberginu í annað. Loks fann hann fórnarlambið, hún sat í bezta stólnum sínum, með heklað teppi og var að lesa nokkra góða daga með Bryndísi eftir hann Jón Hannibalsson. Það fór hrollur um Ljenzherrann.

Ljenzherrann læddist bak við sófann og hver vöðvi í honum var spenntur sem háa C strengur í flygli frá Steinway og sonum. Sú gamla hóstaði og Ljenzherrann kipptist ögn til, en ekki mikið, hann varð að halda stillingu sinni. Ljenzherrann dró loft í lungu sjer, límir sig við gólfið og á hárrjettu augnabliki stekkur hann upp og öskrar.

,,Bu hu hu hu hu, ég er draugur!!!”

Ljenzherrann lendir hljóðlaust á gólfinu með svip sem bar með sjer vonbrigði með viðbrögð gömlu konunnar en það eina sem gerðist var að bókin hans Jóns fjell í kjöltu hennar. Augu hennar störðu stjörf út í loftið og skjannahvítur Ljenzherrann setti upp svip sem sagði meira ,,úps” en nokkur svipur hefir nokkurntíman gert.


Engin ummæli: