fimmtudagur, 1. júlí 2004

Stórglæsilegur fiskur í fúlum læk
Í gær brá Ljenzherrann af Kaffisterkt sjer í sveitasæluna, eða öllu heldur bakvið hljóðmön í Hafnarfirði. Þar vaknaði í honum nátturubarnið og helst vildi hann rífa sig úr öllum fötunum og gerast sjálfum sjer nægur. Á aðra höndina var íslenski draumurinn, bakgarðar einbýlishúsanna í Setbergshverfinu sem allir státuðu af prýðilega vel slegnum flötum, vel snyrtum limgerðum og sumir jafnvel trampólínum svokölluðum. Á hina höndina er hljóðmönin sjálf, glæsilegt moldarmannvirki sem skýlir slyddujeppa og hundaeigendunum fyrir umferðargnýnum frá Reykjanesbrautinni. Mitt á milli manarinnar og fjölskylduparadísarinnar rennur skítugur lækur.

Í læk þessum má finna ýmsar mannvistarleifar svo sem gamla hjólbarða, stígvjel og plastpoka í úrvali. Við hvert skref sem Ljenzherrann tók blúbbsaði svo ákaflega í læknum að sjálft bankastræti núll hefði dauðskammast sín. Á undan Ljenzherranum þaut grá torfa af spriklandi fiskikvikindum sem fest hafa yndi þarna í fúlu vatninu og flýðu undan Ljenzherranum í miklu ofboði.

Ljenzherrann hló innra með sjer og hugsaði til allra feitu krakkanna í paradísarhúsunum við lækinn. Klukkan hálf þrjú dag hvern hlaupa þau um lækjarbakkann í sykurvímu og skelfa litlu fiskikrílin. Búmm búmm búmm heyrist ofan í læknum við hvert fótmál og fiskarnir hjúfra sig saman undir bakkanum og vona það besta.....

Ljenzherrann hrökk upp úr þessum hugsunum sínum er hann kom auga á stóran og glansandi fisk. Fiskur þessi hafði yndisþokka umfram aðra fiska í læknum. Sem vatnið væri matarolía renndi hann sjer ósköp ljúft fram hjá ýmsum hindrunum á botninum og í gegnum gamlar klósettsetur skaust hann eins og lagarins loftfimleikamaður. Limaburðurinn var fágaður, augun voru djúp og skær og í svip hans mátti greina að hann gerði sjer fullkomlega grein fyrir þvi að þetta umhverfi væri honum ekki samboðið.

Fiskurinn væni synti allt í einu hraðbyri að Ljenzherranum og tók ofurlítið stökk þannig að vatnið gáraðist. Þegar vatnið var orðið kyrrt aftur sást fiskurinn hvergi og það eina Ljenzherrann sá var stórglæsilegt andlit sitt sem speglaðist í vatninu.

Ljenzherrann missti andann, hanngerði sjer grein fyrir því að þessi fiskur var spegilmynd hans sjálfs í vatninu, það var Ljenzherrann sjálfur sem var stórglæsilegur fiskur í fúlum læk, svamlandi innan um sjer minni og ómerkilegri fiska.

Engin ummæli: