sunnudagur, 18. júlí 2004

Rjómablíða
Núna skín sólin í heiði og baðar hamingjusamt fólk geislum sínum. Blómin eru þennan dag í júlí á hápunkti fegurðar sinnar en virðast ekki kippa sjer upp við það að útlit þeirra muni fara hnignandi úr þessu. Hinn labradorblandaði collie hundur Hrappur hleypur með lafandi tunguna um Klambratúnið og eltir bolta sem eigandi hans sparkar vítt og breitt. Hundurinn elskar eiganda sinn skilyrðislaust og flaðrar upp um hann eins og hamingjusömum hundspottum einum er lagið. Eigandinn er glaður, en fær þó kökk í hálsinn er hann hugsar út í þá órjettlátu staðreynd að hundum sje skammtaður skemmri tími hjer á jörðu en mönnum. Þetta er þó ekki rjetti tíminn til að hugsa út í kveðjustundina hugsar hann með sjer og sparkar boltanum af sýnu meiri alúð en áður.

Niðri við tjörn leiðast þeir feðgar Benedikt og Sigfús og sleikja sólina. Báðir eru þeir með ís og Sigfús litli stendur í miklu kapphlaupi við sólina með ísinn. En sólin er gráðug og Sigfús litli nær ekki að hafa undan, hann reynir þó hvað hann getur, því hann er snyrtilegur að eðlisfari og líður ekki vel í skítugum fötum. Benedikt lítur brosandi á son sinn og ákveður að hjálpa honum með ísinn áður en í óefni væri komið. Gamall kall situr á einum bekknum með sólgleraugu og hatt og hallar sjer fram á stafinn sinn. Endurnar vagga makindalega á tjörninni og fylgjast með úr öruggri fjarlægð þegar Sigfús fær ísinn sinn aftur. Ein þeirra stingur sjer á kaf þannig að stjelið eitt stendur upp úr. Það þykir Sigfúsi fyndið.  Benedikt lætur sjer nægja að brosa, enda ekki í fyrsta sinn sem hann verður vitni að slíkum atburði.

Bakvið snyrtilegt hús á Seltjarnarnesinu eru þau Haraldur og Soffía að hugsa um garðinn sinn. Haraldur ekur slátturvjelinni hring eftir hring og dáist að rennisljettri flötinni og veltir því fyrir sjer að fara að taka upp á því að slá garðinn fram og til baka til að fá í hann mynstur eins og á Wemblay. Soffía bograr yfir blómabeðunum og er frá Haraldi sjeð ekki ósvipuð öndinni sem að Sigfúsi litla fannst svo fyndinn. Haraldur hverfur í minningunni aftur til þess tíma sem að norðurendinn á henni Soffíu var bæði minni og stinnari en hrekkur frá þeirri umhugsun þegar sláttuvjelin drepur á sjer. Þá virðir hann fyrir sjer húsið sitt, grillið og velhirtan garðinn og setur upp svip sem ber bæði með sjer ánægju með þann stað sem að hann er á í lífinu og þetta góða veður sem bakar nú suðvesturhornið. Soffía lítur upp úr blómabeðinu og sendir Haraldi augnarráð, sama augnarráðið  og  þegar hún sá hann fyrst fyrir tuttugu og fimm árum. Haraldur geldur í sömu mynt og togar síðan "Briggs og Stratton" aftur í gang.

Innan í sólbakaðri gámaþyrpingu situr Ljenzherrann af Kaffisterkt í óþef og stækju. Hann er grautþunnur og engan veginn að höndla það verkefni sem felst í því að vera til. Hendurnar skjálfa og svitinn lekur af honum þar sem sólin stendur beint inn um gluggann. Hann gerir sitt besta til að aftra sólinni inngöngu. Eftir nokkrar tilraunir kemst áfengiseitrað heilabúið að þeirri niðurstöðu að gluggatjöldin sjeu hreinlega ekki nógu löng til að hylja báða enda gluggans samtímis. Með rjettu ætti Ljenzherrann að flatmaga úti í sólinni með hauspoka og hanska til að vinna á mestu bóndabrúnkunni en þess í stað dæsir Ljenzherrann og hlammar sjer niður fyrir framan skrifborðið. Þar bíða hans heilu haugarnir af vinnuseðlum sem stimpla þarf inn í Excel. Párið á þeim er illlæsilegt og Ljenzherranum finnst sem hann þurfi hanska er hann handfjatlar þessa krumpuðu miða með blekklessum sem eiga að heita skrift. Ljenzherrann hefur sig engan veginn upp í það að byrja og vinnuseðlabunkinn virðist vaxa í hvert skipti sem hann lítur undan. Loks höktir hann af stað, en torskiljanlegt hrafnasparkið er eins og steinveggur fyrir heilabú á 30 % afköstum. Ljenzherrann ákveður að vorkenna sjer frekar í hálftíma eða svo.

Flugur hafa aldrei kynmök öðruvísi en með stór sólgleraugu.

Innan í skrifstofunni, sem er af staðlaðri stærð fyrir svefnherbergi í vinnubúðum á evrópska efnahagssvæðinu, eru flugur tvær. Tilhugalíf þeirra er með miklum blóma en mesta ánægju virðast þær hafa af því að eltast við hvora aðra í meters radíus frá Ljenzherranum. Sennilega iðka þær þennan hættulega leik til að sanna hugrekki sitt. Þær eru reyndar nokkuð öruggar þar sem viðbrögðin hjá Ljenzherranum eru langt frá því að vera eins og þau voru á Eiðum 64 þegar hann gat sjer gott orð fyrir magaæfingar og góð viðbrögð. Flugurnar virðast nú hafa heillað hvora aðra upp úr skónum því loks virðast takast ástir með þeim og eftir spennandi eltingaleik í háloftunum taka þær til við að maka sig í reit C-341 á tölvuskjánum. Ljenzherrann kremur þær, hann getur ekki unað þeim þess að hafa fundið ástina.
Engin ummæli: