þriðjudagur, 13. júlí 2004

Ljenzherrann fór sem áður sagði í velheppnaða útilegu um síðustu helgi og hvað er betra en velheppnuð tveggja daga útilega?

Jú að koma þreyttur heim, hoppa upp í dívaninn sinn og velta sjer á hliðina. Líta svo á vekjaraklukkuna og komast að því að gleymst hafði að slökkva á henni, nágrönnunum til ómældrar ánægju. Ljenzherrann hló drungalegum hlátri þegar hann mundi eftir því að klukkan var stillt á hálf sjö. Hláturinn magnaðist síðan ennþá meira þegar það rifjaðist upp fyrir honum að dómsdagshávaðinn sem kemur úr þessu skrifli er slíkur að moldvörpusvipurinn, sem alla jafna er á Ljenzherranum í morgunsárið, er fljótur að molna af og tilviljanakennt pat út í loftið í leit að "off"-takkanum breytist nær samstundis í þaulskipulagða leit, enda hljóðhimnur og brothættir innanstokksmunir í húfi. Loksins þegar Ljenzherranum varð hugsað til þess að klukkan hringir í heilan klukkutíma áður en að hún slekkur á sjer hló hann svo ákaflega að hann skoppaði fram úr dívaninum sínum, lenti á óæðri endanum og braut nögl í öllum bægslaganginum.

Ljenzherrann lá bjargarlaus á gólfinu og öskraði sig hásan á hjálp. Jafnvel þó svo að það væri afskaplega hljóðbært svöruðu nágrannarnir ekki kalli hans. Ljenzherrann þurfti því að liggja þarna þangað til að hann hafði jafnað sig á þessu áfalli, en eins og allir vita eru vel snyrtar hendur Ljenzherrans líf og yndi.

Engin ummæli: