fimmtudagur, 22. júlí 2004

Landgönguliði með lóðrjetta lensu.
Ljenzherrann er mælingarmaður þetta sumarið, ólíkt hinum fyrri þegar hann skrattaðist um á gröfuskriflum, notaði koppafeiti og talaði fjálglega um kvenfólk. Núna fer hann í langar gönguferðir með GPS-mælitæki að vopni og spáir hann meira í gervitunglum en hnátum. Er GPS móttakarinn hafður í bakpoka með áföstu loftneti, Bakpokinn er síðan tengdur í stöng eina gríðarmikla, einna líkastri lensu, sem að Ljenzherranum ber að halda sem lóðrjettastri.  Er Ljenzherrann því ákaflega vígalegur og margan góðan drenginn væri hægt að stinga á hol með vopni þessu og gefa í kjölfarið lögreglu og sjúkraliði nákvæma staðsetningu á sárinu miðað við Reykjavíkurhnitakerfið.


Það væri ljúft ef að bakpokaferðalög þessi væru um ósnortna náttúru en ekki í solli höfuðborgarsvæðissins. Það er þó kanske eins gott því Ljenzherrann er langgönguliði eyðileggingarinnar, á hæla hans kemur heill her af gröfuófjetum sem nagar allt í sundur og mokar öllu burt, eftir því sem Ljenzherrann segir til um. Það myndi því hafa slæmar afleiðingar að senda Ljenzherrann á bakpokaferðalag um Hornstrandir.

Gönguferðir þessar eru oft innan í umferðarhnútnum á Reykjanesbrautinni (reyndar eru sumir umferðarhnútarnir tilkomnir út af þessum sömu gönguferðum)  og vekur hann jafnan mikla athygli með lensuna sína lóðrjettu. enda fátt betra að horfa á þarna í umferðarteppunni. Og fyrst að Ljenzherrann er að brölta um á annað borð með lóðrjetta lensu, hví ekki að festa á hana mótmælaspjöld að hætti Helga Hóseasonar. Myndi Ljenzherrann berjast fyrir sterkara kaffi, betri hitabrúsum og að Gunnar í Gunnarsmayonesi yrði gerður að forseta.

Ljenzherrann brúkar nálægðina við umferðina til að stunda sínar frægu atferlisrannsóknir. Hann fylgist með hinum óþolinmóðu naga stýrið, öðrum bora í nefið á rauðu ljósi og skráir hjá sjer hvort það etur afraksturinn eður ei. Hann fylgist einnig með afturljósum bifreiðanna og spáir í það hvernig svipur sje á hverjum bíl fyrir sig, þriðjukynslóðin af Volkswagen Golf þykir Ljenzherranum til dæmis óþolandi snobbuð og góð með sig.

Eins þykir Lejznherranum af Kaffisterkt gaman að fylgjast með fullorðnu fólki í aftursætum, það er yfirleitt bölvaður hundur í því.

Engin ummæli: