mánudagur, 7. júní 2004

Í morgun í hálf-tíukaffinu opnaði einn af vinnufjelögum Ljenzherrans fyrir sál sína. Þetta var einn af þeim mönnum sem Ljenzherrann taldi að þætti ekkert fallegt og lifði fyrir það eitt að vinna. En þarna stóð hann hinsvegar og blóðgaði hjarta sitt er hann opinberaði, fyrir öðrum keimlíkum manni, þeirri skoðun sínni; hve fagurt væri nú um að litast á Hornströndum.

Svo þrumaði hann digurbarkalega háfleygri lýsingu á staðarháttum í gegnum skítugt skeggið. Slík var dýrðin á Hornströndum að til að hefta ekki tjáningarþörf sína hjelt hann á kaffibollanum með tveim risastórum puttum og olíuklístraðraðar hendurnar sveifluðust eins og vindmylluspaðar í kringum hann, málefninu til stuðnings.

Þegar sjerstaklega hugfólgnir hlutir voru til umfjöllunar komst hann hvað hæst í lýsingunum. Þá tyllti hann sjer á tá og kímdi, rjett á meðan algleymi minningarinnar hertók hugarfylgsnin. Svo rauk frásögnin af stað aftur með svo miklum glæsibrag að kaffinu rigndi úr bollanum yfir gauðdrullugan samfestinginn, sem varð ef eitthvað var, hreinni fyrir vikið.

“það er yndislegt að fara niður að fuglabjörgunum um klukkan sex á morgnanna, anda að sjer fersku lofti, sjá sólina skríða úr hafinu og baða fuglabjargið því ljósi sem það þarf til að vakna til lífsins....”

Í þessum töluðu orðum strunsar Ljenzherrann álútur fram hjá og bætir því við, áður en að hurðin skellist á eftir honum, að þá sje nú einmitt rjetti tíminn til að draga upp hólkinn.

Engin ummæli: