fimmtudagur, 3. júní 2004

Ljenzherrann hefir um dagana gert margan og tilgangslausan hlutinn, en toppnum var sennilegast náð síðasta sumar.

Í vinnunni var í kaffiskúrinn skaffað kaffi, plastglös og einn kassi af RPC-kaffihrærum. Einn slíkur kassi telur ein tvöþúsund stykki og þar sem einungis þrír menn notuðu þennan kaffiskúr voru þetta margra ára birgðir. Fljótlega spunnust upp miklar umræður um kaffihrærur á milli Ljenzherrans og Inga nokkurs regnstakks. Inga þóttu hrærurnar algert afbragð, enda með tilgangslausari hlutum sem hægt er að ímynda sjer, úrkynjaðar teskeiðar, það er það sem þær eru!

Ingi hjelt varla vatni yfir ágæti þessara hræra, en Ljenzherrann fussaði bara og sveiaði yfir þessum ógeðslegu RPC-hrærum. Ljenzherrann hafði nefnilega kynnst “Depa-hrærunum” sumarið áður og eftir það sættir hann sig ekki við neitt annað. Ekki nóg með að Depa geri að meðaltali fimmtíu prósent meiri iðu en hrærur annara tegunda heldur eru þær einnig svo óumdeilanlega fallegar, allt að því fullkomnar. Varð Ingi fljótt spenntur fyrir þessum draumahrærum og festi vart yndi við vinnu eftir þetta.


Í stað þess að vinna lágu þeir Ljenzherrann og Ingi oft í grasinu, horfðu upp í skýin og Ljenzherrann sagði sögur af hinum frábæru Depa-hrærum og því forskoti sem þær veittu mönnum í lífsgæðakapphlaupinu.

Ingi brosti og tilfinning í maga hans, íblandin spennu og tilhlökkun, olli því að hann gat vart legið kyrr. Ingi skríkti af tilhlökkun og bað Ljenzherrann að láta sig vita ef hann sæi ský sem væri svipað í laginu og Depa-hræra. Ljenzherrann sór það við drengskap sinn, en taldi það reyndar ólíklegt þar sem að hinn hái herra hlyti að vera sjeðari en svo, að birta eitthvað á breiðtjaldi sínu bláa sem væri lögverndað jafn ríkulega með einkakleyfum og Depa-hræran.

Dag einn er þeir lágu sem áður í blaktandi tunvingulsstránum blasti við þeim regnbogi. Ingi spenntist allur upp og sagðist hafa heyrt það sem krakki að oft leyndust fjársjóðir við endann á regnbogum. Hlupu þeir því upp til handa og fóta, trekktu skrjóðinn í gang, gripu með sjer kassann af RPC-hrærunum og keyrðu regnbogann á enda.

Regnboginn reyndist síðan enda í Bílapartasölunni við Rauðavatn, en sá staður er sannkallað himnaríki fyrir þá sem eiga bilaðar Toyotur. Ljenzherrann og Ingi földu bifreið sína innan um bílhræin og hófu að rannsaka svæðið með afar leynilegum hætti. Ljenzherrann fór fyrir þeim fjelögum og rannsakaði grunsamlega hluti í gegnum stækkunargler auk þess sem hann snusaði reglulega út í loftið að hætti ráðríkra hunda.

Ljenzherrann, sem er mikilsvirt "nef" í ilmvatnabransanum, var ekki lengi þefa uppi kaffiilminn og rekja hann í kaffistofuna, því Ljenzherrann veit sem er að þar sem er kaffi, er von á hrærum.

Þeir gægðust inn um gluggann og Ingi gerði nærri því í brækurnar, því að við hliðina á kaffibrúsanum stóð heill kassi af Depa-kaffihrærunum dásamlegu. Ljenzherrann sló Inga utanundir og bað hann taka sig taki og hljóp síðan út í bíl eftir RPC-kaffihrærukassanum og sólgleraugum. Sumir hlutir eru einfaldlega óframkvæmanlegir, nema í skjóli gríðarstórra sólgleraugna.

Leituðu þeir fjelagar svo uppi Ásgeir Jamil Allanson, en hann bæði kóngur og prestur á þessum stað. Þegar Jamil sá þá tvo koma spígsporandi til sín eins og stórmerkilega erindreka einhvers stórveldinssins, með stór sólgleraugu á nefi og kassa af kaffihrærum í fangi, varð hann hissa. En þegar hann varð þess var að vitleysingarnir voru að falast eftir hans kaffihrærum, í skiptum fyrir sínar, duttu honum allar dauðar lýs úr höfði og skimaði rækilega í kringum sig eftir földum myndavjelum.

Það var svo heldur en ekki uppi á þeim fjelögunum typpið þegar þeir stikuðu borubrattir inn á kaffistofu bílapartasölunnar og skiptu um hrærur. Ingi brast í söng og gengu þeir á braut drjúgir með sig og eins innilega hamingjusamir og þeir einir geta orðið, sem eru með hálfan kassa (eða meira) af Depa-hrærum í fanginu.

Engin ummæli: