mánudagur, 3. maí 2004

Upphafið og endirinn
Ljenzherrann af Kaffisterkt fór í dag í hraðbankann til að taka út peninga af kreditkortinu sínu. Þessa sömu peninga huggðist hann nota til að borga kreditkortareikninginn sinn.

Þegar Ljenzherrann kom inn í bankann blasti við löng röð af fólki sem skipti athygli sinni samvizkusamlega á milli klukkunnar sinnar og gamla karlsins sem var að saka gjaldkerann um að svindla á sjer.

Ljenhzerrann bætir sjer aftan við röðina og sjer fram á leiðinlegan hálftíma. Í þessu arkar inn í bankann þreytuleg og subbuleg kelling með 6 ára dóttur sína í eftirdragi. Krakkanum skipar hún í röðina, en hlammar sjer sjálfri í leðursófann.

Nú höktir inn í bankann gömul kona af rosknustu gerð. Sjálfvirka rennihurðin gerir heiðarlega tilraun til að klemma hana fasta, en verður frá að hverfa vegna manns sem sveiflar stresstöskunni sinni af tilviljun fyrir geislann. Maðurinn öskrar "selja!! selja!!!" í handfrjálsa farsímann sinn en rennihurðin bölvar í hljóði, hana langaði alltaf til að vera fallexi.

Gamla konan skakklappast inn í bankann í skjóli hækjunnar sinnar, og dæsir þegar hún sjer biðröðina. Ljenzherrann gerir sig reiðubúinn til að veita henni nábjargirnar, því sennilega lifir hún ekki af svona langa biðröð. Sú gamla tekur þó á öllu sem hún á og fikrar sig í áttina að sex-ára stelpunni, sem er ennþá öftust í röðinni, og spyr:

“Er þetta biðröðin... væna?”
“Já”
“Og hvar er upphafið, og hvar er endirinn”

Litla stúlkan svarar af ótrúlegu innsæi:
“Hjer.”

Engin ummæli: